Leiðtogar flokkanna sex sem náðu inn á þing í kosningum gærdagsins ræddu málin í kvöld við Kristján Má Unnarsson í myndveri Stöðvar 2.
Sigmundur segir forseta Íslands hafa boðað sig á fund á morgun og Bjarni tekur í sama streng.
„Við höfum ekki hafið neinar stjórnarmyndunarumræður. Það er eðlilegt að menn fari að þreifa fyrir sér og ég hef sagt það oft. að tveggja flokka stjórn finnst mér vera fyrsti valkostur,“ segir Bjarni, og segir að það hljóti að koma til greina að Sjálfstæðisflokkur fái umboð til stjórnarmyndunar.
Þá segir Bjarni mikilvægt að stjórnarmyndunarumræður taki stuttan tíma, en Sigmundur segir úrlausnarefnin mjög stór og setur spurningamerki við hve mikið liggi á. Hann segir þó samhljóm varðandi ýmis mál meðal Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks.

Árni Páll segir öll spilin á hendi þessara Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, en að Samfylkingin muni rækja sínar lýðræðislegu skyldur að því leyti að ef til þeirra verði leitað muni þau taka því.

Birgitta Jónsdóttir hjá Pírötum segist hafa áhyggjur af því að fólk verði vonsvikið þegar ekki verður hægt að efna þau loforð sem hafa verið sett fram. Hún segir innviði samfélagsins í molum.
Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur í spilaranum efst í fréttinni.