Innlent

Faðir í farbann - sterkur grunur um shaken baby syndrome

Karl á þrítugsaldri var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í farbann til 23. apríl að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við rannsókn hennar á andláti stúlkubarns í austurborg Reykjavíkur um þar síðustu helgi. Maðurinn er faðir stúlkunnar, sem var fimm mánaða gömul.

Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að nánari bráðabirgðaniðurstöður réttarlæknisfræðilegrar rannsóknar renni stoðum undir að andlát barnsins megi rekja til svokallaðs „Shaken baby syndrome", þ.e. að barnið hafi verið hrist það harkalega að það hafi orsakað blæðingar inn á heila þess.

Farbann er til að tryggja nærveru sakbornings á landinu á meðan málið er til meðferðar í réttarvörslukerfinu. Í tilkynningu lögreglunnar segir að rannsóknarhagsmunir hafi ekki lengur verið taldir fyrir hendi og því var ekki lögð fram krafa um gæsluvarðhald á þeim forsendum, né var gæsluvarðhald talið nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×