Viðskipti innlent

Eins árs fangelsi fyrir innherjasvik

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Friðfinnur Ragnar Sigurðsson, fyrrverandi starfsmaður Glitnis, var dæmdur í tólf mánaða óskilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í dag fyrir innherjasvik. Þá eru 19,2 milljónir króna gerðar upptækar hjá honum.

Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að Friðfinnur Ragnar hafi búið yfir upplýsingum um stöðu bankans, þegar hann seldi bréf í honum þann 12. mars 2008, sem höfðu mikla þýingu fyrir stöðu bankans og framtíðarhorfur. Hann seldi einnig hluti í bankanum síðar á sama ári en ríkið tók yfir 75% hlut í bankanum í lok september og skilanefnd tók svo bankann yfir í október.

„Þær hafi verið nægilega tilgreindar og nákvæmar til þess að teljast innherjaupplýsingar, þær höfðu ekki verið gerðar opinberar og þær voru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð hlutabréfa í Glitni banka ef opinberar væru," segir í dómnum.

Friðfinnur Ragnar var fundinn sekur um að hafa selt bréf í Glitni, í aðdraganda hruns bankans, þrátt fyrir að hafa haft upplýsingar sem töldust innherjaupplýsingar.

Í dómnum segir að með hliðsjón af nauðsyn varnaðaráhrifa komi ekki til greina að skilorðsbinda refsinguna.

Þetta er í annað sinn í sögunni sem íslenskur dómstóll dæmir fyrir innherjarsvik. Fyrsta skiptið var þegar Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, var dæmdur fyrir innherjasvik þegar hann seldi bréf sín í Landsbankanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×