Lífið

Opnari og einlægari Magnús Jónsson

Ásgerður Ottesen skrifar
Magnús Jónsson semur lög á kassagítar
Magnús Jónsson semur lög á kassagítar Fréttablaðið/Arnþór
„Ég hef verið að gera danstónlist undanfarin ár og langar til þess að hvíla mig á því í bili,“ segir Magnús Jónsson, leikari og tónlistarmaður.

Magnús, sem margir þekkja úr þáttunum Réttur og hljómsveitinni Gus Gus, var að gefa út nýtt lag þar sem hann segir skilið við „alteregóið“ sitt úr poppheiminum. „Nýja lagið, My Everything, er samið á kassagítar og ég flyt það síðan yfir í tölvuna. Þetta er eitthvað sem ég hef ekki gert síðan í Silfurtónum hér í gamla daga. Ég er eflaust opnari og einlægari en áður. Kassagítarinn fær mann til þess að svara tilfinningum sínum betur.“

Aðspurður segist Magnús nú vilja semja undir eigin nafni, en margir muna eflaust eftir honum úr rafdúettnum BB&Blake þar sem hann, ásamt Veru Sölvadóttur, gaf út plötu árið 2010. Til að byrja með ætlar hann að dreifa tónlistinni á Youtube og segir hann það koma sér vel þar sem hann geti hægt og rólega þróað tónlistina samhliða því að koma henni á framfæri.

Hvað varðar myndbandið við lagið segir Magnús að það sé í stíl við tónlistina, hrátt og einfalt. „Ég tók myndbandið upp á gamla myndbandsupptökuvél einn og óstuddur, ég vildi hafa það í stíl við lagið.“ Magnús segist ekki vita hvenær aðdáendur megi eiga von á nýju plötunni. „Ég fer svolítið fram og til baka með það, þetta á allt eftir að skýrast betur með tímanum,“ segir Magnús Jónsson að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.