Viðskipti innlent

Spá hækkun vísitölu neysluverðs í desember

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Vilhelm
Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,4 prósent í desember, frá mánuðinum á undan. „Gangi spáin eftir eykst verðbólga úr 3,7 prósentum í 4,0 prósent,“ segir í morgunkorni greiningar.

„Verðbólguhorfur næstu fjórðunga eru svipaðar og í síðustu spá okkar, og ríkir mikil óvissa um stóra áhrifaþætti á borð við kjarasamninga og aðhald í ríkisfjármálum.“

Telja þau að húsnæðisliður og ferða- og flutningaliður VNV muni vega langþyngst til hækkunar í mánuðinum. „Vísbendingar af markaði eru um áframhaldandi hækkun íbúðaverðs, og gerum við ráð fyrir að reiknuð húsaleiga hækki um 0,8% í desember (0,11% í VNV) eftir 1,4% hækkun í nóvembermánuði.“

Einnig virðast flugfargjöld til útlanda hafa hækkað verulega og spáir greiningardeildin 9 prósent hækkun flugfargjalda í desember. Eldsneytisverð hefur einnig hækkað frá nóvember. „Aðrir þættir hafa minni áhrif, og skiptir þar ekki síst máli að krónan hefur verið að styrkjast undanfarnar vikur og því er innfluttur hækkunarþrýstingur óvenju lítill miðað við árstíma.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×