Þjóðverjinn Sebastian Vettel bar sigur úr býtum í þýska kappakstrinum í Nürburgring í Formúli 1-keppninni en ökuþórinn keyrir fyrir Red Bull-liðið.
Þetta var í fyrsta sinn sem Vettel vinnur á heimavelli. Með sigrinum jók Vettel forskot sitt í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna í 157 stig en í öðru sæti kemur Fernando Alonso hjá Ferrari með 123 stig. Kimi Räikkönen er í þriðja sæti í keppni ökumanna með 118 stig.
Lið Red Bull náði einnig að styrkja stöðu sína í keppni bílsmiða en liðið hefur eftir keppnina í gær 250 stig en Mercedes er töluvert á eftir þeim með 181 stig.
„Þetta var erfiður kappakstur,“ sagði Vettel eftir keppnina í gær.
Þetta er í 30. skipti sem Vettel fer með sigur af hólmi í Formúlu 1-kappaksturskeppni.
„Ég get ekki lýst því hversu ánægður ég er með það að vinna loks í mínu heimalandi. Kimi [Räikkonen] pressaði á mig alla keppnina og ég þurfti að hafa mig allan við til að koma fyrstur í mark.“
„Þetta er einn mikilvægasti sigurinn á ferlinum, loksins hér í Nürburgring.“
