Innlent

Bara aurar miðað við tjónið

Stígur Helgason skrifar
Hópbílaleigan er að hluta til í eigu sama fólks og Guðmundur Tyrfingsson ehf. og á inni tæplega 250 milljónir hjá ríkinu, samkvæmt dómi héraðsdóms.
Hópbílaleigan er að hluta til í eigu sama fólks og Guðmundur Tyrfingsson ehf. og á inni tæplega 250 milljónir hjá ríkinu, samkvæmt dómi héraðsdóms.
„Þetta eru bara aurar miðað það sem hefði orðið ef við hefðum fengið verkið,“ segir Tyrfingur Guðmundsson, einn eigenda Hópbílaleigunnar, sem fékk í gær dæmdar um 249 milljónir króna í bætur frá íslenska ríkinu.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að því að fyrirtækið hefði orðið fyrir skaða þegar Vegagerðin hafnaði tilboði þess í skólaakstur á Suðurlandi og Suðurnesjum.

Hæstiréttur hafði áður viðurkennt skaðabótaskyldu ríkisins vegna málsins, sem á rætur að rekja til þess þegar Vegagerðin stóð fyrir útboði árið 2005 í skólaakstur fyrir Fjölbrautarskóla Suðurlands og Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Hópbílaleigan gerði hagstæðasta tilboðið í aksturinn en Vegagerðin hafnaði tilboðinu á þeim forsendum að Hópbílaleigan hefði ekki fjárhagslega og tæknilega burði til að standa við tilboðið. Niðurstaða dómstóla er sú að ekki hafi verið heimilt að hafna tilboðinu á þessari forsendu og að ákvörðunin hafi því brotið gegn ákvæðum laga um útboð.

Tjónið byggir á mati dómkvaddra matsmanna, en Tyrfingur segir það þó mjög vanmetið. „Félagið væri gríðarlega stórt og öflugt í dag ef það hefði fengið verkið,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×