Lífið

Dansinn dunar á Innipúkanum

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Það verður ekki aðeins dansað á landsbyggðinni um helgina. Tónlistarhátíðin Innipúkinn fer nefnilega fram um helgina en skipuleggjendur og gestir hennar tóku forskot á sæluna og hristu á sér skankana í hádeginu í dag.

Innipúkinn þetta árið verður með breyttu sniði en tónlistarhátíðin fer fram föstudags- og laugardagskvöld. Sem fyrr fer hátíðin fram vítt og breytt um Reykjavík en miðpunktur hennar er á Faktorý við Smiðjustíg 6. Dagskráin er fjölbreytt og munu listamenn á borð við Valdimar, Steed Lord, Botnleðju og Agent Fresco stíga á stokk.

Hátíðin hófst í hádeginu í dag en þar safnaðist saman föngulegur hópur fólks til að hrista skankana og hita upp fyrir átök helgarinnar.

„Við erum að hefja stærstu og bestu helgi sumarsins hérna í Reykjavík," segir Steinþór Helgi Arnsteinsson, skipuleggjandi. „Við vorum með Launch-beat hérna við Faktorý í hádeginu. Við munum síðan láta dansinn duna á Faktorý um helgina. Þannig að þetta er góður fordrykkur fyrir helgina."

„Það er náttúrulega mjög gaman að vera hér á Faktorý, enda er þetta næst síðasta helgina sem þessi staður er opin."

Og það verður meira um að vera en tónleikar á Innipúkanum þetta árið. Nískupúkinn, flóamarkaður Innipúkans, verður í portinu hjá Faktorý á morgun. Einnig verður vatnsbyssustríð í Hjartagarðinum ásamt öðru fyrir barnafjölskyldur.

„Við höfum verið á Iðnó undanfarin ár en núna færðum við okkur í Faktorý. Svo verðum við með þétta fjölskyldudagskrá í Breiðholtinu. Við viljum höfða til sem flestra. Þetta er góð helgi, það grisjast vel úr borginni og allir njóta sín."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.