Lífið

Endurheimti fulla orku með spíruðu fæði

Marín Manda skrifar
Katrín H. Árnadóttir er býflugnabóndi og ræktar einnig margar spírutegundir.
Katrín H. Árnadóttir er býflugnabóndi og ræktar einnig margar spírutegundir.
Katrín H. Árnadóttir leitaði í óhefðbundnar leiðir til að lækna veikindi og stofnaði sjálf framleiðslufyrirtæki með heilsuvörum. 

Eftir nokkurra ára veikindi sem heilbrigðiskerfið hafði lítil ráð við leitaði ég óhefðbundinna leiða. Lausnina fann ég á endanum í Púertó Ríkó á heilsustofnun sem byggir á spíruðu lifandi fæði.

Á tólf dögum losnaði ég við margra ára verkjasögu ásamt því að endurheimta fulla orku. Sú upplifun varð ákveðinn vendipunktur í mínu lífi. Ég fór að skoða rannsóknir á heilsutengdu matarræði, m.a. spíruðu fæði og þeim eiginleikum sem spírað fæði hefur á líkamsstarfsemina.

Niðurstöður þeirrar vinnu fannst mér svo áhugaverðar að ég ákvað að stofna matvælafyrirtæki undir vörumerkinu ECOSPÍRA sem hefði það að markmiði að framleiða hágæða heilsufæði byggða á spíruðu hráefni til að auka aðgengi almennings að slíkri fæðu,“ segir Katrín H. Árnadóttir sem er viðskipta- og umhverfisfræðingur að mennt. 

ECOSPÍRA hefur nú hafið framleiðslu á ýmsum tegundum heilsu- og kryddspíra úr nokkrum tegundum fræja, ertum og baunum sem hafa samkvæmt rannsóknum góða heilsufarslega eiginleika eins og brokkólíspírur, radísuspírur, smáraspírur, blaðlauksspírur, hvítlauksspírur, rauðrófuspírur, grænkálsspírur auk fleiri spírutegunda.

Starfsfólkið hjá Ecospíru.
Engin kemísk efni, aukaefni eða rotvarnarefni eru notuð við framleiðsluna og hefur fyrirtækið hlotið lífræna vottun frá Vottunarstofunni Tún. 

„Þegar ég fór af stað með fyrirtækið þá var markhópur minn fyrst og fremst heilsuáhugafólk og fólk sem glímir við heilsuvandamál. 

Það sem kom mér skemmtilega á óvart er hve spírur hafa fallið vel í kramið í „gourmet“-menninguna hér á landi og eru nánast allir bestu veitingastaðirnir og fyrirtækjamötuneyti á höfuðborgarsvæðinu viðskiptavinir mínir í dag,“ segir Katrín og heldur áfram: „Nú er ég að undirbúa að fjölga tegundum kryddspíra sem koma á markað með haustinu auk þess að skoða erlenda markaði fyrir íslenskar spírur. 

Katrín H. Árnadóttir framleiðir ýmsar tegundir bauna og erta.
Spírur eru um 80% vatn og hér á landi höfum við mikla og góða auðlind í vatninu okkar sem og endurnýjanlega orku sem margar þjóðir geta ekki keppt við.“ 

Katrín stundar einnig býflugnarækt og framleiðir íslenskt hunang. Hunang er sem kunnugt er mikil ofurfæða og inniheldur m.a. tólf mismunandi mjólkursýrugerla, er bakteríudrepandi auk þess sem það inniheldur fjölmörg næringarefni og vítamín.

Nánari upplýsingar eru á Facebook-síðu fyrirtækisins undir Ecospira.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.