Innlent

Ferðamennirnir vilja einnig upplifa Vatnajökul að vetri

Kristján Már Unnarsson skrifar
Bjarni Bjarnason rekur fyrirtækin Jöklajeppa og Ís og ævintýri.
Bjarni Bjarnason rekur fyrirtækin Jöklajeppa og Ís og ævintýri.
Fyrirtæki í Suðursveit bókar nú ferðamenn í vélsleðaferðir á Vatnajökul allt til nóvemberloka en áður lauk starfseminni upp úr verslunarmannahelgi. Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var rætt við ferðamenn ættaða frá Suður-Kóreu sem lýstu mikilli eftirvæntingu að komast á jökulinn en þeir voru að leggja upp í ferð frá skálanum í Jöklaseli.

Upplýsingaskilti við hringveginn um Suðursveit segir ferðamönnum að þar er hægt að komast upp á Vatnajökul. Það vekur athygli okkar að þótt sumarið sé löngu liðið eru erlendir ferðamenn enn að mæta til að komast í vélsleðaferð um þetta mesta jökulhvel Evrópu.



Upplýsingaskilti við hringveginn í Suðursveit um jöklaferðirnar.Myndir/Baldur Hrafnkell Jónsson, Stöð 2.
Bjarni Bjarnason, eigandi fyrirtækjanna Jöklajeppa og Íss og ævintýra, segir að allt frá því í mars og fram til 20. október hafi þeir verið með daglegar ferðir. Þetta verður strjálla í nóvember en þó segir Bjarni að nær daglega sé hringt og núna er síðasta ferð bókuð 23. nóvember.

En þetta var ekki svona fyrst eftir að skálinn í Jöklaseli var opnaður fyrir rúmum tuttugu árum, þá voru þetta bara tíu vikur að sumri og segir Bjarni að þá hafi botninn dottið úr þessu fljótlega eftir verslunarmannahelgi.

Haraldur Mímir Bjarnason leiðsögumaður fer yfir öryggisreglur með hópi ferðamanna áður en lagt er á Vatnajökul.
Í þættinum “Um land allt” næstkomandi mánudagskvöld verður fjallað nánar um grósku í ferðaþjónustu suðaustanlands og sveitahótelið að Smyrlabjörgum heimsótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×