Innlent

Borgarbúar almennt ánægðir með að breyta Laugavegi í göngugötu

Sumarlokanir mælast vel fyrir hjá borgarbúum samkvæmt Gallup Capacent.
Sumarlokanir mælast vel fyrir hjá borgarbúum samkvæmt Gallup Capacent. Mynd /Valli

Borgarbúar eru almennt mjög ánægðir með það fyrirkomulag að hluta Laugavegs skuli breytt í sumargötu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Stuðningur íbúa  við sumargötuna  í þeim hverfum er næst liggja miðborginni er mjög afgerandi. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Reykjavíkurborg.

Fleiri borgarbúar en nokkru sinni fyrr eru hlynntir því að breyta hluta Laugavegs í göngugötu yfir sumartímann. Niðurstöður viðhorfskönnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar sýna að 67,9% aðspurðra eru hlynntir því að hafa göngugötu á hluta Laugavegs.

Sambærileg könnun var gerð í mars - apríl 2012 og sýndu niðurstöður hennar að 63,2% aðspurðra voru hlynntir slíkum breytingum. Í könnuninni nú eru 29,8% svarenda alfarið hlynntir göngugötu á hluta Laugavegs, 27,7% mjög hlynntir og 16,3% frekar hlynntir.

Aðeins lítið brot aðspurðra er alfarið andvígt breytingunum, eða 5,7%.

Almenn ánægja er með sumargöturnar hjá svarendum í öllum hverfum borgarinnar. Íbúar þeirra hverfa sem næst liggja miðborginni eru þó algjörlega afgerandi í viðhorfi sínu til sumargötukaflans á Laugavegi. 41% íbúa í Miðborg og Vesturbæ eru alfarið hlynntir og 37% íbúa í Hlíðum og Laugardal. Meirihluti íbúa í öðrum hverfum borgarinnar eru þó einnig mjög hlynntir því að breyta hluta Laugavegs í sumargötu.

Úrtak könnunarinnar var 1150 manns á Reykjavíkursvæðinu, 18 ára og eldri. Fjöldi svarenda var 695 og svarhlutfall því 60,4%.

Sumargötur í Reykjavík verða opnaðar laugardaginn 1. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×