Fótbolti

"Ekki hægt að halda HM í Katar að sumri til“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sepp Blatter tilkynnir að HM 2022 fari fram í Katar.
Sepp Blatter tilkynnir að HM 2022 fari fram í Katar. Nordicphotos/Getty
Greg Dyke, formaður enska knattspyrnusambandsins, segist harður stuðningsmaður þess að halda þurfi heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2022 utan Katar eða utan sumartímans.

Hitastigið í Katar er í kringum 40°C yfir sumarið og hefur Alþjóðaknattspyrnusambandið tilkynnt að verið sé að skoða hvort halda eigi keppnina að hausti til, vetri eða að vori.

Vangaveltum FIFA hefur verið tekið misjafnlega. Forsvarsmenn ensku úrvalsdeildarinnar eru ekki sáttir enda myndi það hafa mikil áhrif á gang mála í úrvalsdeildinni færi stórmótið fram á sama tíma og deildarkeppnin stendur yfir.

„Það er ekki hægt að halda keppnina að sumri til þannig að tveir möguleikar eru í boði. Annaðhvort þarf að halda keppnina annars staðar eða á öðrum tíma ársins," sagði Dyke í samtali við BBC.

Katar vann atkvæðagreiðsluna um HM 2022 eftir baráttu við Suður-Kóreu, Japan, Ástralíu og Bandaríkin. Ákvörðun FIFA að veita Katar keppnina var harðlega gagnrýnd og talið að um spillingu væri að ræða. Enginn fótur virðist þó vera fyrir þeim ásökunum.

Dyke segir sérstakt að FIFA hafi ekki velt hitavandamálinu fyrir sér fyrr en nú. Jafnvel þótt leikvangarnir verði loftkældir þurfi að hugsa um allan þann fjölda áhorfenda sem mætir í hitann mikla í Katar.

„FIFA tekur auðvitað ákvörðunina sem verður alltaf erfið. Allir sem starfa í knattspyrnuheiminum gera sér grein fyrir að keppnin getur ekki farið fram að sumri til í Katar. Það hefur hins vegar tekið langan tíma að fá umræðuna um það í gang."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×