Þingflokkur framsóknarmanna samþykkti nú fyrir skömmu tillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um hverjir verða ráðherrar flokksins í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á þingflokksfundi Framsóknar á Alþingi.
Eygló Harðardóttir verður félagsmálaráðherra. Gunnar Bragi Sveinsson verður utanríkisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson verður sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra. Þá verður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Þegar er búið að tilkynna um ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, varaformaður flokksins, innanríkisráðherra. Illugi Gunnarsson verður menntamálaráðherra.
Kristján Þór Júlíusson verður heilbrigðisráðherra. Ragnheiður Elín Árnadóttir verður iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Einar K. Guðfinnsson verður svo forseti Alþingis og Ragnheiður Ríkharðsdóttir verður formaður þingflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, verður svo fjármála- og efnahagsráðherra.
Athygli vekur að þrjár konur eru í ráðherrahópnum en fjórar eru í fráfarandi ríkisstjórn.