Innlent

Íhugar að hætta við

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, segir það auðvitað slæmt að til séu kristnir menn sem standi ekki með fólki í réttindabaráttu. Hún íhugar nú hvort hún eigi að hætta við erindi sitt á kristilegu samkomunni Hátíð Vonar.

Mikið fjaðrafok hefur verið í kringum Hátíð Vonar sem verður haldin í september næstkomandi og komu bandaríska predikarans Franklin Graham hingað til lands vegna hennar. Graham hefur verið umdeildur vegna ýmissa róttækra skoðanna sinna, þar á meðal um samkynhneigð og andstöðu hans við hjónabönd fólks af sama kyni.

Frétt um hátíðina var birt á heimasíðu Þjóðkirkjunnar og er á dagskrá að biskup Íslands flytji erindi í byrjun hennar. Haft var eftir biskupnum í Fréttablaðinu í morgun að Þþjóðkirkjan komi ekki til með að endurskoða aðkomu sína að hátíðinni. Nú virðist annað hljóð komið í strokkinn og segist Agnes vera að íhuga hvort hún eigi að hætta við komu sína á hátíðina, „Það eru möguleikar í stöðunni. Annar möguleikinn er sá að ég hætti við og hinn möguleikinn að ég mæti og segi frá því hvar kirkjan stendur í þessu máli,“ segir hún.

Í yfirlýsingu sem kom frá Þjóðkirkjunni um þetta mál kemur fram að það sé slæmt að þetta hafi birst í vikunni sem Hinsegin dagar eru haldnir. Aðspurð hvort þetta sé ekki bara slæmt yfir höfuð segir Agnes það auðvitað vera slæmt að til séu kristnir menn sem að ekki standa með þeim sem að eru í réttindabaráttu. „Það er slæmt finnst mér,“ segir hún að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×