Lífið

Diskókonungurinn ennþá í fullu fjöri

Marín Manda Magnúsdóttir skrifar
Nile Rodgers kemur fram með hljómsveitinni Chic í Silfurbergi í Hörpu í kvöld.
Nile Rodgers kemur fram með hljómsveitinni Chic í Silfurbergi í Hörpu í kvöld. Fréttablaðið/Daníel
„Á þessu tónleikaferðalagi spilum við á fleiri stöðum en ég hef nokkurn tímann gert síðan ég stofnaði Chic árið 1976. Á þessu ári spilum við á yfir 200 tónleikum, sem er alveg ótrúlegt. Ég vil ekki vera monta mig, því ég er ekki þannig manneskja en ég hef heyrt að þessi sýning sé númer eitt á þeim tónleikahátíðum sem við höfum verið á, enda spilum við alltaf eins og þetta séu síðustu tónleikarnir okkar,“ segir Nile Rodgers glaður í bragði.

Skemmtir sér best þegar nóg er að gera

Rodgers hefur selt yfir 100 milljónir platna í gegnum feril sinn og um þessar mundir er hann staddur á Íslandi á tónleikaferðalagi sínu um Evrópu. Í kvöld kemur hann fram í Hörpunni með diskóhljómsveitinni Chic.

Hljómsveitina stofnaði hann ásamt besta félaga sínum, Bernard Edwards, en tvíeykið hefur samið ófáa tónlistarsmelli í gegnum tíðina. Edwards lést fyrir 17 árum eftir tónleika í Japan en Nile Rodgers heldur ótrauður áfram og segist skemmta sér best þegar hann hefur nóg að gera og getur horft fram á við. „Ég er alltaf að hugsa um næsta skref og dvel því ekki mikið í núinu. Ég fékk krabbamein fyrir tveimur árum og læknarnir héldu að ég myndi ekki lifa það af. Því trúi ég því að jákvæð og sterk viðhorf til lífsins komi manni ansi langt, ásamt því að vera að gera það sem maður elskar.“

Vann með Madonnu og Diönu Ross

Rodgers hefur einu sinni áður komið til Íslands en þá spilaði hann með hljómsveitinni New York City. Bandið kom til landsins árið 1972 og spilaði á herstöðinni í Keflavík. Tónlistargoðið hefur unnið með öllum helstu nöfnunum í tónlistarheiminum en þar má nefna Luther Vandross, Sister Sledge, Diönu Ross, Madonnu, Simon le Bon og fleiri.

Fram undan segir hann að tvær plötur séu á leiðinni og ný smáskífa sé einnig væntanleg í samstarfi við Daft Punk en lagið Get Lucky varð heldur betur vinsælt í ár.

Miða má kaupa á Miði.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.