Augað
Hallveig Thorlacius
Salka
Spennusagan Augað eftir Hallveigu Thorlacius er sjálfstætt framhald unglingabókarinnar Martröð sem kom út árið 2008. Sagan segir frá Hrefnu Esmeröldu, fjórtán ára nemanda í Hagaskóla. Hún er alin upp af íslenskum hjónum sem fundu hana í tré þegar hún var þriggja ára og smygluðu henni frá Mexíkó. Síðasta bók fjallaði einmitt um leit hennar að uppruna sínum en þá kynntist hún blóðföður sínum. Hann starfaði eitt sinn fyrir mexíkósku mafíuna, en er nú á flótta undan henni. Í þessari bók fer Hrefna til Spánar að hitta hann og þar lendir hún í miklum ævintýrum. Reyndar svo umfangsmiklum að það er spurning hvort þau rúmist í 143 blaðsíðna bók.
Ævintýrið hefst þegar blóðfaðir hennar hverfur. Hrefna fær þá vini sína frá Íslandi yfir til Spánar til að hjálpa henni að leysa ráðgátuna um brotthvarfið. Krakkarnir eru dregnir harkalega inn í heim hinna fullorðnu og glæpirnir sem þeir komast á snoðir um eru alls ekkert grín. Sagan er sögð í dagbókarformi og það er vel heppnað, sérstaklega í seinni hluta bókarinnar þegar spennan er orðin meiri.

Hrefna er þroskuð en hugsanlega mætti setja spurningarmerki við hugmyndir hennar um fjölskyldur. Á einum stað segir hún til dæmis að þó hún hafi lent hjá góðu fólki þá jafnist ekkert á við alvöruforeldra.
Niðurstaða: Hress og spennandi unglingabók, vel skapaðar persónur og söguþráður sem hefði þó vel mátt við fleiri blaðsíðum.