Íslenski boltinn

Skagaliðið var brothætt í sumar

Stefán Árni Pálsson skrifar
ÍA verður fimmta félagið sem Gunnlaugur Jónsson þjálfar frá 2009. Fréttablaðið/valli
ÍA verður fimmta félagið sem Gunnlaugur Jónsson þjálfar frá 2009. Fréttablaðið/valli
Gunnlaugur Jónsson var í gær ráðinn þjálfari meistaraflokks ÍA í knattspyrnu og mun því Skagamaðurinn stýra liðinu í 1. deildinni á næstu leiktíð. Gunnlaugur kom HK upp í fyrstu deild í sumar eftir sigur í 2. deildinni en nú er hann kominn heim.

„Þetta er virkilega spennandi og gaman að fá að taka við uppeldisfélaginu þar sem ég átti mín bestu ár sem knattspyrnumaður,“ segir Gunnlaugur Jónsson.

„Það er margir ungir og efnilegir strákar í þessu Skagaliði og því er í raun allt til alls til að byggja upp stöðugt lið, en menn verða að hafa ákveðinn vilja til þess. Það sást í sumar að liðið var of brothætt.“

Gunnlaugur hefur þjálfað Selfoss, Val, KA og HK á sínum ferli og aldrei stoppað lengi við.

„Það fyrsta sem verður á dagskrá hjá mér er að reyna að mynda sterkan hóp og þá gæti ég þurft að leita jafnvel enn yngra en við höfum nú þegar í dag.“

„Ég persónulega ólst upp við ákveðin atriði hér á Akranesi þar sem menn leggja sig alla hundrað prósent fram alltaf, það hefur vantað að mínu mati.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×