Tónlist

Jóhann Jóhannsson: Prisoners hefur vissulega opnað einhverjar dyr

Sara McMahon skrifar
Jóhann Jóhannsson hefur hlotið góða dóma fyrir tónlistina í Prisoners. Hann skoðar nú ýmis vinnutilboð.
Jóhann Jóhannsson hefur hlotið góða dóma fyrir tónlistina í Prisoners. Hann skoðar nú ýmis vinnutilboð.
„Ég á í viðræðum um nokkur mismunandi verkefni. Velgengni Prisoners hefur vissulega opnað einhverjar dyr og ég hef fengið þó nokkuð af fyrirspurnum í kjölfarið. Ég get ekki sagt núna hvaða myndir þetta eru, en það eru allt frekar stór verkefni,“ segir Jóhann Jóhannsson tónskáld. Hann hefur fengið mjög góða dóma fyrir tónlist sína í myndinni Prisoners.

Hann lýsir Prisoners sem draumaverkefni og segir samstarfið við leikstjóra myndarinnar, Denis Villeneuve, hafa verið sérlega gott. „Ég bjóst eiginlega ekki við að þetta yrði svona áreynslulaust enda hefur maður heyrt alls konar hryllingssögur frá fólki sem vinnur í Hollywood-maskínunni.“

Jóhann var viðstaddur frumsýningar Prisoners í Toronto og Los Angeles, þar sem hann hélt einnig tónleika. „Það var áhugavert að upplifa þessa frumsýningarstemmingu með rauða dregilinn, blaðamannafundi og allt það.“

Prisoners hefur verið orðuð við Óskarstilnefningu, þá hefur tónlist Jóhanns einnig fengið mjög góða dóma. Sjálfur telur Jóhann ólíklegt að hann hljóti verðlaun fyrir tónlistina við Prisoners. „Mér finnst það frekar ólíklegt, enda er ég frekar svartsýnn að eðlisfari. Hins vegar er mjög líklegt að myndin fái einhverjar tilnefningar.“

Jóhann vinnur nú að tveimur evrópskum myndum, önnur er framleidd af Lars Von Trier. „Þetta er mjög svört tragikómedía. Kim Basinger og Jordan Prentice sem lék dverginn í "In Bruges" leika aðalhlutverk en þetta er mjög svört tragi-kómedía. Basinger kemur mjög á óvart í þessari mynd og er samleikur hennar og dvergsins er alveg stórkostlegur,“ segir hann að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.