Innlent

Flestir vilja klára aðildarviðræðurnar

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ríflega helmingur þjóðarinnar vill að aðildarviðræður við Evrópusambandið verði kláraðar og samningurinn settur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þriðjungur landsmanna vill hins vegar draga umsóknina til baka.

Þetta kemur fram í könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins sem var gerð dagana 15. til 16. apríl.  

Spurt var: Hvernig vilt þú að framhaldi aðildarviðræðna við Evrópusambandið verði háttað?    

Af þeim sem tóku afstöðu vildu 34 prósent draga umsóknina til baka. 55 prósent vildu klára viðræðurnar og leggja samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. 11 prósent vildu gera hlé á viðræðum og og hefja þær ekki aftur nema með samþykki þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Kjósendur Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks eru klofnir þegar kemur að afstöðu til Evrópusambandsins. 48 prósent kjósenda Framsóknarflokks vilja draga umsóknina til baka en 40 prósent klára viðræðurnar - 12 prósent vilja gera hlé. Hjá Sjálfstæðisflokknum er hlutfallið svipað. 46 prósent vilja draga umsóknina til baka, 38 prósent vilja klára viðræður en 16 prósent gera hlé.

Yfirgnæfandi meirhluti kjósenda Samfylkingarinnar vill hins vegar klára viðræðurnar - eða 92 prósent.

það sama vilja 87 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar - 72 prósent kjósenda Vinstri grænna og 58 prósent kjósenda Pírata.

Karlar eru almennt hlynntari því að klára aðildarviðræðurnar en konur. Í öllum kjördæmum, nema Norðvesturkjördæmi, vildu flestir kjósendur klára aðildarviðræður og leggja samninginn í dóm þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×