Baltimore Ravens er meistari í NFL-deildinni en liðið vann magnaðan sigur, 34-31, á San Francisco 49ers í Super Bowl í nótt. 49ers var lengi í gang, kom til baka og var ekki fjarri því að stela sigrinum.
Það hefur mikið gengið á hjá Ravens í vetur. Eigandi félagsins, Art Modell, féll frá og svo missti liðið andlegan leiðtoga liðsins, Ray Lewis, í meiðsli og þá var ekki bjart fram undan.
Lewis kom þó til baka og eftir að hann gaf það út að hann myndi leggja skóna á hilluna eftir tímabilið hefur liðið verið ósigrandi og fáir sáu fyrir ótrúlega frammistöðu liðsins í úrslitakeppninni.
Joe Flacco, leikstjórnandi Baltimore, fór algjörlega á kostum í fyrri hálfleik. Þrjár af sendingum hans enduðu með snertimarki og Baltimore var mikið betra liðið.
Hinn ungi og óreyndi leikstjórandi 49ers, Colin Kaepernick, fann sig aftur á móti engan veginn í fyrri hálfleik. Hann átti verk fyrir höndum í síðari hálfleik en staðan í hálfleik var 21-6 fyrir Baltimore.
Síðari hálfleikur byrjaði á versta mögulega hátt fyrir 49ers því Ravens skilaði upphafssparki síðari hálfleiks alla leið í markið. 28-6 og Niners í vondri stöðu.
Skömmu síðar sló út rafmagninu í Höllinni og varð að stöðva leikinn í heilar 34 mínútur.
Kaepernick og félagar neituðu að gefast upp og komu til baka með látum. Skoruðu 17 stig í röð og náðu mest að minnka muninn í tvö stig, 31-29. Niners fékk tækifæri til þess að stela sigrinum undir lokin en sending Kaepernick misheppnaðist og Ravens fagnaði sætum sigri.
Þetta var annar Super Bowl-titill félagsins en félagið vann síðast árið 2000. Joe Flacco var valinn verðmætasti leikmaður leiksins.
Hrafnarnir frá Baltimore unnu leikinn um Ofurskálina

Tengdar fréttir

Twitter logaði í nótt - 5,5 milljónir tístu yfir flutningi Beyoncé
Það var nóg um að vera á samskiptamiðlinum Twitter þegar úrslitaleikurinn í NFL fór fram í gærkvöldi.

Peterson leikmaður ársins í NFL
Hlauparinn Adrian Peterson hjá Minnesota Vikings var valinn leikmaður ársins í bandarísku NFL-deildinni. Tilkynnt var um valið í nótt.