Viðskipti innlent

Appið Alfreð auðveldar fólki atvinnuleitina

Helgi Pjetur Jóhannsson hjá Stokki Software, hönnuði Alfreðs-appsins.
Helgi Pjetur Jóhannsson hjá Stokki Software, hönnuði Alfreðs-appsins.
Nýtt app er komið í loftið sem auðveldar fólki atvinnuleit. Þetta er farsímaforrit fyrir iPhone- og Android-snjallsíma og geta notendur vaktað starfsgreinar sem það hefur áhuga á og fengið tilkynningar um laus störf. Appið heitir Alfreð og er hannað af Stokki Software sem þróar hugbúnað fyrir snjallsíma á Íslandi.

„Þetta er öðruvísi nálgun, meira persónuleg. Við erum að nýta tækni símtækja. Það sér enginn hvað maður er að gera í sínum síma og hægt er að vakta ný störf sem eru á manns þekkingarsviði, það er aldrei að vita hvað maður sér áhugavert,“ segir Helgi Pjetur Jóhannsson, einn af eigendum Stokks Software. Hann segir að ráðningarstofur séu mjög jákvæðar í garð nýja appsins því hægt sé að ná til fleira fólks, jafnvel til þeirra sem ekki eru í virkri atvinnuleit. Einnig má finna í appinu ráðgefandi greinar sem gagnast fólki í atvinnuleit, til dæmis hvernig á að gera góða ferilskrá. „Við teljum einnig að þetta app verði gott fyrir fyrirtæki sem geta séð hversu margir eru að vakta ákveðin störf,“ segir Helgi.

Eins og stendur eru 100 laus störf í appinu í níu starfsgreinum, en allar upplýsingar og hlekki má finna á alfred.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×