Innlent

Lyklafrumvarp lagt fram á haustþingi

Valur Grettisson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Lyklafrumvarp verður lagt fram á haustþingi, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, sagði í stefnuræðu sinni í gær að frumvarpið yrði lagt fram á næstu vikum.

Frumvarpið er undir stjórn félags- og húsnæðismálaráðherra og innanríkisráðherra og miðar að því að gera eigendum yfirskuldsettra íbúða kleift að losna án gjaldþrots undan eftirstöðvum sem veð stendur ekki undir.

Í ræðu forsætisráðherra kemur fram að um tímabundna aðgerð sé að ræða til þess að leysa vanda tengdan afleiðingum efnahagshrunsins. Þá er einnig unnið að útfærslu leiða til að aðstoða eignalausa einstaklinga við að greiða kostnað þegar þeir óska eftir gjaldþrotaskiptum.

Þetta er í takt við aðgerðaráætlun um skuldavanda heimilanna sem Sigmundur Davíð sagði í stefnuræðu sinni á sumarþingi.

Í ræðu Sigmundar Davíðs í gær kom einnig fram að sérstök verkefnisstjórn mun í byrjun næsta árs skila tillögum um framtíðarstefnu í húsnæðismálum.

Þar munu koma fram tillögur um hagkvæmasta fyrirkomulagið við fjármögnun almennra húsnæðislána, leiðir til að tryggja virkan leigumarkað og tillögur um hvernig best verði staðið að skilvirkum félagslegum úrræðum fyrir þá sem þess þurfa með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×