Skoðun

Nýjar hugmyndir í þágu heimilanna

Ingvar Garðarsson skrifar
Við höfum öll heyrt loforð stjórnmálamanna um að lækka skuldir heimilanna um tugi, ef ekki hundruð milljarða. Loforð sem byggð eru á mögulegum gróða af flóknum samningum sem geta tekið mörg ár og koma því ekki til framkvæmda strax, ef nokkurn tímann.

Sjálfstæðisflokkurinn býður hins vegar upp á aðgerðir strax og ég vil leggja til nýjan möguleika fyrir skuldsett heimili, sem felst í því að opna tímabundið fyrir tilfærslu á almennum lífeyrissparnaði yfir í húsnæðissparnað. Skattlaust. Þeir sem eru 40 ára eða yngri gætu valið þá leið að færa allt að 80% af uppsöfnuðum lífeyrissparnaði sínum, án þess að skerða réttindi annarra, yfir í húsnæðissparnað. Heimildin myndi lækka um 2% á ári eftir fertugt.

Tökum dæmi af hjónum sem hafa verið með 600 þúsund króna meðaltekjur á mánuði í 15 ár. Þessi hjón eiga um 14 milljóna króna „inneign“ í lífeyrissjóði. Ef við færum 80% af þeim sparnaði yfir í sparnað í húsnæði, með greiðslu inn á húsnæðislán, lækka skuldir hjónanna um 11,4 milljónir króna. Þetta sparar hjónunum 710 þúsund krónur í vexti og afborganir á ári.

Þegar hjónin eru 65 ára fá þau 220 þúsund króna greiðslu á mánuði úr lífeyrissjóði til ráðstöfunar eftir skatta og ættu 11,4 milljónum meira í húsnæðinu samfara því að hafa sparað 18 milljónir í vexti og afborganir á 25 árum. Samtals gera þetta 29,4 milljónir í sparnað og eignauka. Ef hjónin hefðu ekki fengið þessa tilfærslu á sparnaðinum væru þau að fá 248 þúsund á mánuði eftir skatta og greiðslu afborgana og vaxta af 11,4 milljón króna láni sem enn myndi hvíla á íbúðinni. Hjónin eru þannig mun betur sett án þess að aðrir beri nokkurn kostnað.

Lykillinn að bættri stöðu hjónanna í þessu dæmi er að ávöxtun lífeyrissjóðanna er 3,5% en vaxtakostnaður af láninu 4,7%. Ríkið gefur eftir 4 milljónir í skatta sem að óbreyttu ætti að greiða eftir 24 ár. Á móti kemur aukinn hagvöxtur og sparnaður fyrir ríkið af því að greiða fjölskyldunni ekki vaxtabætur. Bæði ríki og heimili væru betur sett.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×