Vopnið krónan Þórður Snær júlíusson skrifar 22. febrúar 2013 06:00 Í síðustu viku var sagt frá því að hópur fjárfesta, undir forystu Framtakssjóðs Íslands (FSÍ), í eigu ríkisbankans og lífeyrissjóða, væri að setja sig í stellingar um að kaupa íslensku einkabankana Íslandsbanka og Arion banka. Í fréttum kom líka fram að aðrir í þessum hópi væru ýmsir fagfjárfestar. Þetta er kunnuglegur inngangur að viðskiptafrétt. Í fréttum og tilkynningum af svona kaupum segir oftast að „hópur fjárfesta undir forystu lífeyrissjóða er að eignast…“. Lífeyrissjóðir eru iðulega hafðir í forgrunni flestra stórra viðskipta sem verið er að gera. Það mýkir ásýnd þeirra og dregur úr áhyggjum almennings vegna þeirra. Með í þessum fjárfestahópum eru þó iðulega einstaklingar og eignastýringasjóðir banka. Slíkir sjóðir eru í eðli sínu ekkert ólíkir hinum erlendu vogunarsjóðum, sem iðulega eru ekki kallaðir annað en hrægammasjóðir hjá ákveðnum kreðsum. Andlitslausir fjárfestar sem setja peningana sína í sjóði sem síðar kaupa eignir í þeim tilgangi að græða peninga. Án þess að nokkur fái að vita hversu mikla. Hugmyndin um bankakaupin virðist ganga út á að þessir fjárfestar fái að kaupa bankana tvo á mjög niðursettu verði. Fjárfestarnir eru sagðir tilbúnir að greiða fyrir að hluta til eða öllu leyti með gjaldeyri sem þeir eiga erlendis. Röksemdafærslan er sú að þá eigi allir að vinna. Erlendir kröfuhafar komist út úr Íslandi en íslensku fjárfestarnir fái gríðarlega mikilvæg fyrirtæki með miklum afslætti. Margir þeirra sem hafa verið að fjárfesta mikið á Íslandi eftir hrun voru nefnilega í aðstöðu til að sjá fyrir vandræði á góðærisárunum. Þeir pössuðu sig því á að flytja mikla fjármuni úr landi. Fall krónunnar um tæp fimmtíu prósent, gjaldeyrishöft og aukaafsláttur fjárfestingaleiðar Seðlabankans gerir þessum aðilum kleift að versla á brunaútsölu á Íslandi. Og það hefur verið eftir miklu að slægjast á Íslandi fyrir þessa aðila. Eftir hrun fór enda stór hluti þjóðhagslegra mikilvægra fyrirtækja til banka eða annarra kröfuhafa sem ætla sér ekki að vera langtímaeigendur þeirra. Þetta voru meðal annars tryggingafélög, fjarskiptafyrirtæki, smásölurisar, fjölmiðlar, bílaumboð og auðvitað fjármálafyrirtæki. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um málið, sem gefin var út í fyrra, sagði að 46 prósent þeirra 120 fyrirtækja sem flokkast stór á Íslandi hefðu verið í ráðandi eign fjármálafyrirtækja í byrjun árs 2011. Á því ári voru tuttugu slík seld og enn fleiri í fyrra. Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa verið seld í íslenskum krónum með þeim margfalda afslætti sem felst í því að gera viðskipti í þeirri mynt. En trompin í spilastokki endurskipulagningarinnar eru bankarnir. Þeir sem ráða þeim eru með örlög atvinnulífsins í höndum sér. Sérstaklega á meðan höftin eru í gildi. Það er hagur þeirra sem vilja eignast þá að tala niður krónuna og festa höftin í sessi. Þá fá þeir enga alþjóðlega samkeppni um þau fyrirtæki sem þeir vilja eignast. Þá sitja þeir einir að kökunni og geta dundað sér við að prútta við bakarann áður en þeir éta hana. Það er vert að hafa þetta í huga þegar stjórnmálamenn, sjálfskipaðir sérfræðingar eða stórir leikendur úr viðskiptalífinu tala upp krónuna eða niður raunhæfa möguleika um upptöku annarra gjaldmiðla. Það stendur yfir barátta um valdataumana á Íslandi. Að henni koma margir og úr öllum áttum. Og sem stendur er krónan að tryggja að margir þeirra sem áttu eignir fyrir hrun eignist þær aftur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þórður Snær Júlíusson Mest lesið Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun BRCA Elín Íris Fanndal Jónasdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Þegar náttúruvinir hitta frambjóðendur. Hjálpartæki kjósandans Stefán Jón Hafstein Skoðun Eitt heimili, ein fjölskylda og ein heilsa Pétur Heimisson Skoðun Að kjósa með nútíma hugsunarhætti Ragnhildur Katla Jónsdóttir Skoðun
Í síðustu viku var sagt frá því að hópur fjárfesta, undir forystu Framtakssjóðs Íslands (FSÍ), í eigu ríkisbankans og lífeyrissjóða, væri að setja sig í stellingar um að kaupa íslensku einkabankana Íslandsbanka og Arion banka. Í fréttum kom líka fram að aðrir í þessum hópi væru ýmsir fagfjárfestar. Þetta er kunnuglegur inngangur að viðskiptafrétt. Í fréttum og tilkynningum af svona kaupum segir oftast að „hópur fjárfesta undir forystu lífeyrissjóða er að eignast…“. Lífeyrissjóðir eru iðulega hafðir í forgrunni flestra stórra viðskipta sem verið er að gera. Það mýkir ásýnd þeirra og dregur úr áhyggjum almennings vegna þeirra. Með í þessum fjárfestahópum eru þó iðulega einstaklingar og eignastýringasjóðir banka. Slíkir sjóðir eru í eðli sínu ekkert ólíkir hinum erlendu vogunarsjóðum, sem iðulega eru ekki kallaðir annað en hrægammasjóðir hjá ákveðnum kreðsum. Andlitslausir fjárfestar sem setja peningana sína í sjóði sem síðar kaupa eignir í þeim tilgangi að græða peninga. Án þess að nokkur fái að vita hversu mikla. Hugmyndin um bankakaupin virðist ganga út á að þessir fjárfestar fái að kaupa bankana tvo á mjög niðursettu verði. Fjárfestarnir eru sagðir tilbúnir að greiða fyrir að hluta til eða öllu leyti með gjaldeyri sem þeir eiga erlendis. Röksemdafærslan er sú að þá eigi allir að vinna. Erlendir kröfuhafar komist út úr Íslandi en íslensku fjárfestarnir fái gríðarlega mikilvæg fyrirtæki með miklum afslætti. Margir þeirra sem hafa verið að fjárfesta mikið á Íslandi eftir hrun voru nefnilega í aðstöðu til að sjá fyrir vandræði á góðærisárunum. Þeir pössuðu sig því á að flytja mikla fjármuni úr landi. Fall krónunnar um tæp fimmtíu prósent, gjaldeyrishöft og aukaafsláttur fjárfestingaleiðar Seðlabankans gerir þessum aðilum kleift að versla á brunaútsölu á Íslandi. Og það hefur verið eftir miklu að slægjast á Íslandi fyrir þessa aðila. Eftir hrun fór enda stór hluti þjóðhagslegra mikilvægra fyrirtækja til banka eða annarra kröfuhafa sem ætla sér ekki að vera langtímaeigendur þeirra. Þetta voru meðal annars tryggingafélög, fjarskiptafyrirtæki, smásölurisar, fjölmiðlar, bílaumboð og auðvitað fjármálafyrirtæki. Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um málið, sem gefin var út í fyrra, sagði að 46 prósent þeirra 120 fyrirtækja sem flokkast stór á Íslandi hefðu verið í ráðandi eign fjármálafyrirtækja í byrjun árs 2011. Á því ári voru tuttugu slík seld og enn fleiri í fyrra. Öll eiga þau það sameiginlegt að hafa verið seld í íslenskum krónum með þeim margfalda afslætti sem felst í því að gera viðskipti í þeirri mynt. En trompin í spilastokki endurskipulagningarinnar eru bankarnir. Þeir sem ráða þeim eru með örlög atvinnulífsins í höndum sér. Sérstaklega á meðan höftin eru í gildi. Það er hagur þeirra sem vilja eignast þá að tala niður krónuna og festa höftin í sessi. Þá fá þeir enga alþjóðlega samkeppni um þau fyrirtæki sem þeir vilja eignast. Þá sitja þeir einir að kökunni og geta dundað sér við að prútta við bakarann áður en þeir éta hana. Það er vert að hafa þetta í huga þegar stjórnmálamenn, sjálfskipaðir sérfræðingar eða stórir leikendur úr viðskiptalífinu tala upp krónuna eða niður raunhæfa möguleika um upptöku annarra gjaldmiðla. Það stendur yfir barátta um valdataumana á Íslandi. Að henni koma margir og úr öllum áttum. Og sem stendur er krónan að tryggja að margir þeirra sem áttu eignir fyrir hrun eignist þær aftur.