Skoðun

Ár vondra vinnu­bragða í Stúdenta­ráði HÍ

Katla Ólafsdóttir og Mathias Bragi Ölvisson skrifa

Á meðan Vaka, félag lýðræðissinaðra stúdenta, hefur setið í meirihluta Stúdentaráðs Háskóla Íslands hafa slæm vinnubrögð viðgengist.

„Með lögum skal land vort byggja en eigi með ólögum eyða.“ Þessi orð eru jafn sönn í dag og þau voru á 13. öld. Því miður hefur núverandi skrifstofa Stúdentaráðs virt lög og reglur SHÍ að vettugi og það í krafti meirihluta Vöku. Hlutverk Stúdentaráðs er að gæta hagsmuna stúdenta af festu og ábyrgð, en það sem hefur sést á þessu starfsári er öfugt við það – skipulagsleysi, ógagnsæi og endurtekin brot á lögum ráðsins.

Skrifstofa Stúdentaráðs hefur t.a.m. ekki tekið saman hagsmunaskrár kjörinna fulltrúa, ógilti fyrri verklagsreglur og hefur ekki sett sér nýjar, auk þess sem upplýsingaskylda gagnvart stjórn ráðsins hefur ítrekað verið vanvirt. Síðastliðin ár hefur verið skipað lýðræðislega í nefndir Stúdentaráðs og fulltrúum skipt eftir niðurstöðum kosninga samkvæmt verklagsreglum ráðsins. Eftir að hafa ógilt verklagsreglurnar tók Vaka öll forsæti í nefndum Stúdentaráðs. Það vekur einnig miklar áhyggjur að engin fjárhagsáætlun hefur verið lögð fram á starfsárinu og það virðist sem skrifstofan ætli ekki að gefa slíka áætlun frá sér. Þetta er annað skýrt dæmi um lagabrot núverandi skrifstofu. Afleiðingarnar eru augljósar: SHÍ hefur veikst sem hagsmunasamtök, traust stúdenta til ráðsins hefur beðið hnekki og slagkraftur þess gagnvart stjórnvöldum hefur verið skertur til muna.

Fyrsta starfsár Vöku í meirihluta í langan tíma verður minnst af okkur sem ár lögleysunnar, ógagnsæis og athafnaleysis. Stúdentar eiga betra skilið, og þeir munu hafa tækifæri til að krefjast breytinga sem Röskva boðar. Við viljum tryggja aftur lýðræðisleg og vönduð vinnubrögð og standa vörð um hagsmunabaráttu stúdenta. Röskva vill endurbyggja bæði slagkraft SHÍ og fagmennsku, og þar með trúverðugleika ráðsins.

Röskvu er treystandi til að leiða hagsmunabaráttu stúdenta með heiðarleika, gagnsæi og lýðræði að leiðarljósi.

Stúdentar hafa tækifæri til að krefjast breytinga á morgun og fimmtudag, 2 og 3. apríl. Kjósum Röskvu!

Mathias Bragi Ölvisson er forseti Röskvu og Katla Ólafsdóttir er oddviti Röskvu í Stúdentaráði




Skoðun

Sjá meira


×