Menning

Listagenið sofnaði Þyrnirósarsvefni

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Svava Bjarnadóttir"Ég var hvorki hvött né lött en hef alltaf málað og teiknað,“ segir hún.
Svava Bjarnadóttir"Ég var hvorki hvött né lött en hef alltaf málað og teiknað,“ segir hún. .Fréttablaðið/Vilhelm
Svava Bjarnadóttir ljósmyndari opnar sýninguna Hrópandi þögn í dag klukkan 14 í Gerðubergi í Breiðholti. Þar eru magnaðar myndir af ferðum hennar um landið og allar með skýra tengingu við íslenskt þjóðlíf.

„Ég hef mikinn áhuga á fólki og reyni að hafa manneskju eða einhverja mjög sérstaka stemningu í hverri mynd,“ segir Svava Bjarnadóttir ljósmyndari sem opnar ljósmyndasýningu í Gerðubergi í dag undir yfirskriftinni Hrópandi þögn. Hvaðan kemur sá titill?



„Myndirnar á sýningunni urðu margar til á ferðum mínum um landið sumarið 2012 með góðri vinkonu, Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði. Hún var að vitja minja sem safnið á um allt land og þar fann ég mörg góð myndefni, bæði af húsakosti og fólki sem lifir fremur óhefðbundnu lífi. Þar eru líka eldri myndir frá Grímsstöðum á Fjöllum. Það eru töfrar við þann stað. Bara á einu kvöldi og einni morgunstund tók ég þar magnaðar myndir. Ein landslagsmynd þaðan er til dæmis algerlega í anda titils sýningarinnar. Grímsstaðir eru ekki lengur við þjóðveg 1 en staðurinn hrópar á mann, víðernið er svo mikið og svo er Dettifoss í bakgarðinum.“



Svava átti heima á Gufuskálum á Snæfellsnesi fyrstu ár ævi sinnar, var þar umvafin sterkri náttúru jökuls, hrauns og ólgandi úthafsöldu og því engin furða þótt fylgi henni kraftur. Hún starfaði sem fjármálastjóri fyrirtækja í mörg ár, síðast hjá Mannviti en hætti þar árið 2012 til að ljúka námi í ljósmyndun. Þurfti ekki hugrekki til?



„Jú, en það var sköpunarþörf í mergnum sem fór hvergi,“ segir hún og kveðst hafa kynnst ljósmyndun ung gegnum kærastann sinn sem hún svo giftist. „Það var mjög rómantískt þegar við vorum í myrkraherberginu að vinna við framköllun og stækkun,“ rifjar hún upp. „Síðan hef ég alltaf verið veik fyrir svarthvítum myndum.“



Hún kveðst þó aldrei hafa hugsað um sig sem listakonu. „Ég var eins og Karitas sem Kristín Marja skrifaði um. Stemningin þegar ég var að alast upp var: Þú þarft bara að vinna, vinkona. Ég var hvorki hvött né lött en hef alltaf málað og teiknað, skorti fyrst og fremst sjálfstraust og það var svo skrítið að þegar ég fór í viðskiptafræðina sofnaði listagenið þyrnirósarsvefni.“



Þar kom þó að Svava keypti sér góða myndavél og var boðið í ljósmyndahóp sem heitir Imagio. Þar kveðst hún hafa fengið hvatningu og að lokum ákvað hún að ljúka námi í ljósmyndun frá New York Institute of Photography. Nú hefur hún líka lært markþjálfun, sem snýst um að ná til fólks og fá það til að virkja sína bestu kosti, og skiptir tíma sínum milli þess að starfa sem rekstrarráðgjafi, markþjálfi og ljósmyndari. „Ég vel mér sjálf verkefni í ljósmynduninni,“ segir hún, „og vil hafa það þannig til að halda frelsinu og gleðinni.“



Slóð inn á vef Svövu er www.svava.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×