Lífið

Grýtti eggjum í Simon Cowell í beinni útsendingu

Lágfiðluleikarinn Natalie Holt varð landsfræg í Bretlandi í gærkvöldi þegar hún tók sig til í úrslitaþætti Britain's Got Talent og grýtti eggjum í dómarana, þar á meðal hinn alræmda Simon Cowell.

Uppákoman er vægast sagt furðuleg, en Natalie, sem hefur verið tilnefnd til Bafta-verðlaunanna fyrir tónsmíðar, spilaði ásamt strengjakvartetti sínum, Raven Quartet, undir flutningi bræðranna Richards og Adams, sem kepptu til úrslita í gærkvöldi.

Í miðju lagi hætti Natalie að spila, gekk inn á mitt sviðið, og grýtti eggjum í dómarana án fyrirvara. Gæslumenn koma næstum samstundis inn á sviðið og fjarlægja lágfiðluleikarann furðulega og bræðurnir héldu áfram að syngja eins og ekkert hefði í skorist.

Í fyrstu héldu dómararnir að eggjakastið væri hluti af atriðinu, en þegar í ljós kom að svo var ekki, hrósuðu þeir bræðrunum fyrir frábæran flutning - og fyrir að halda ró sinni á sérkennilegu augnabliki.

Lágfiðluleikarinn uppátækjasami hefur hinsvegar beðist afsökunar á að hafa kastað eggjum í dómarana.

Hinar konurnar þrjár, sem eru með Natalie í kvartettnum, tóku sérstaklega fram á Twitter-síðu hljómsveitarinnar í gærkvöldi að þær hefðu ekki tengst gjörningnum eða vita hvað Natalie ætlaði sér.

Lögreglan var kölluð á svæðið út af Natalie, en ákveðið var að aðhafast ekki frekar og verður atvikið ekki kært.

Dómararnir létu hana þó heyra það eftir flutning bræðranna í gærkvöldi, Amanda Holden, einn dómaranna, sagði meðal annars að Natalie væri heimsk belja (e. stupid cow.)

Cowell snéri þessu raunar upp í grín, og sagði þáttinn hafa „the eggs-factor“ (sem er afbökun á X-factor).

Ekki er fyllilega ljóst hvað Natalie gekk til, en breskir fjölmiðlar greina frá því að hún hafi tekið þátt í forkeppninni á síðasta ári og ekki komist áfram.

Myndbandið má sjá hér fyrir ofan.

(Viðvörun, hér fyrir neðan verður tilkynnt um sigurvegara keppninnar.)

Sigurvegari gærkvöldsins voru hinsvegar skuggadansararnir í hópnum Attraction.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.