Sundkappinn Hugi Harðarson er einn fjölmargra keppenda á Landsmóti UMFÍ fyrir 50 ára og eldri sem fer nú fram í Vík í Mýrdal.
Skagamaðurinn Hugi , sem var á tímabili í hópi sterkustu sundmanna landsins, er að taka þátt í sínu fyrsta Landsmóti UMFÍ 50+. Hugi, sem verður fimmtugur eftir tvær vikur, tekur að sjálfsögðu þátt í sundi á mótinu og skellti sér að auki líka í kastgreinar.
„Ég er gamall ungmennafélagi og tók þátt í nokkrum landsmótum þegar ég var yngri. Þar keppti ég alltaf í sundi en núna langaði mér að breyta til og bæta við nokkrum greinum. Ég var ekkert búinn að æfa kastgreinar fyrir mótið, ætlaði að vísu að gefa mér tíma í það, en það fyrirfórst. Ég er að æfa hins vegar garpasund tvisvar í viku og í hina almennu líkamsrækt,“ sagði Hugi eftir keppnina í gær.
Hugi byrjaði að æfa sund sjö ára gamall og hætti um tvítugt að æfa fyrir alvöru. Hans aðalgreinar voru baksund, skriðsund og fjórsund. Hugi átti á tímabili nokkur Íslandsmet.
„Maður býr að því núna í dag að hafa æft mikið þegar maður var yngri. Ég reyni hvað ég get til að halda mér í æfingu en það er núna bara svo að heilsan skiptir öllu máli og því nauðsynlegt að halda henni við með reglubundni hreyfingu. Mér finnst þessi 50+ mót alveg frábær, hitta gamla félaga, kynnast nýju fólki gefur lífinu gildi. Ég er ákveðinn í því að taka þátt í mótinu á Húsavík á næsta ári og reyna bæta mig frá þessu móti,“ sagði Hugi Harðarson hress í bragði.
Reyni hvað ég get til að halda mér í æfingu
