Erlent

Kókdrykkja tengd dauðsfalli þrítugrar konu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/AFP
Mikil drykkja Coca-cola var stór þáttur í dauða þrítugrar konu á Nýja-Sjálandi. Þetta hefur fréttavefurinn BBC eftir dánardómstjóra.

Natasha Harris, sem lést fyrir þremur árum af völdum hjartaáfalls, drakk allt að tíu lítra af gosdrykknum á degi hverjum. Fór neyslan ellefufalt fram úr ráðlagðri hámarksneyslu á sykri og tvöfalt í tilfelli koffíns.

Forsvarsmenn Coca-cola höfðu haldið því fram að ekki væri hægt að tengja neyslu vöru þeirra við dauðsfall konunnar. Harris, sem var átta barna móðir og bjó í borginni Invercargill á suðureyju landsins, hafði átt við veikindi að stríða í lengri tíma.

Fjölskylda hennar sagði að hún hefði orðið háð neyslu gosdrykkjarins og fengi fráhvarfseinkenni, titraði öll, ef hún neytti hans ekki.

Coca-Cola skilti í San Francisco á vesturströnd Bandaríkjanna.Nordicphotos/AFP
Dánardómstjórinn David Crerar telur að neysla drykkjarins hafi haft mikið að segja um dauðsfall Harris.

„Ég tel, miðað við þau sönnunargögn sem eru fyrir hendi, að væri ekki fyrir gríðarlega mikla neyslu Natöshu Harris á kóki sé ólíklegt að hún hefði látið lífið á þeim tímapunkti sem hún dó og á þann hátt," segir í niðurstöðu Crerar.

Útreikningar Crerar gáfu þá niðurstöðu að í 10 lítrum af gosdrykknuum væri meira en 1 kg af sykri og 970 mg af koffíni að því er BBC hefur eftir sjónvarpsstöðinni TVNZ.

Crerar bætti þó einnig við að gosdrykkjaframleiðandinn gæti ekki borið ábyrgð á ofneyslu fólks á vörum þess. Hann sendi þó skilaboð til gosdrykkjaframleiðanda um að merkja á skýrari máta áhættuna sem fylgi mikilli neyslu sykurs og koffíns.

Hann benti einnig á að fjölskylda Harris hefði mátt vita í hvað stefndi.

„Sú staðreynd að draga þurfti tennurnar úr henni nokkrum árum fyrir lát hennar af völdum kókdrykkju að því er fjölskylda hennar taldi að viðbættri þeirri staðreynda að eitt barna hennar fæddist án glerungs á tönnum sínum hefðu átt að vera næg viðvörunarmerki fyrir fjölskyldu hennar og hana."

Frétt BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×