Lífið

Opnar fyrstu tattú-stofuna í Breiðholti

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
„Ég leitaði lengi að húsnæði í 101 en fann ekkert sem hentaði. Svo bauðst mér þessi staður á mínum gömlu bernskuslóðum svo ég sló til,“ segir Páll Ásgeirsson, sem opnað hefur húðflúrstofuna Classic Tattoo í Breiðholtinu.

Páll hefur starfað sem húðflúrari í fimmtán ár og bjó síðustu fjögur ár í Gautaborg þar sem hann rak sína eigin stofu. Nú er hann kominn aftur heim í Breiðholtið. „Stofan er hérna beint fyrir framan blokkina sem ég ólst upp í þegar ég var strákur, sem er einstaklega skemmtilegt.“

Páll missti annað augað í slysi þegar hann var tveggja ára. Hann segir að það hafi þó aldrei angrað sig. „Þegar eitt skynfæri hverfur eða hættir að virka, þá eykst virkni annarra skynfæra. Þetta hefur aldrei haft nein áhrif á mig eða vinnuna, enda þekki ég ekkert annað,“ segir hann, og bætir við að hann sé haldinn ákveðinni fullkomnunaráráttu.

„Þegar ég vann í unglingavinnunni þá sópaði ég gangstéttina svo vel að það var eins og biskupinn eða forsetinn væru á leiðinni. Þeir gengu þó aldrei þessar blessuðu gangstéttir. Ég hef alltaf átt það til að vanda mig of mikið.“

Páll skartar sjálfur fjölda húðflúra en fyrsta húðflúrið fékk hann 17 ára gamall. „Það var árið 1989. Í raun mörgum árum en þetta varð virkilega vinsælt.“ Classic Tattoo býður viðskiptavinum sínum upp á sérstakt tilboð í tilefni opnunarinnar en býður þar að auki upp á skemmtilega nýjung.

„Viðskiptavinir okkar geta komið og fengið ráðgjöf hjá húðflúrara á milli klukkan 12 og 13 og klukkan 18 og 19, alla virka daga. Vandamálið hefur nefnilega oft verið það að fólk kemur inn á húðflúrstofur og flúrarinn er upptekinn þegar viðkomandi kemur inn. Hann getur þar af leiðandi ekki aðstoðað,“ segir Páll.

Með þessu fyrirkomulagi skapast því bæði vinnufriður fyrir húðflúrarann og tími fyrir viðskiptavininn. „Svo má nú ekki gleyma því að stofan mín er sú eina sem getur boðið upp á almennileg bílastæði,“ segir Páll léttur í dúr og áréttar að allir séu velkomnir til hans.

Páll heldur úti Facebook-síðu þar sem hægt er að fylgjast með, en stofan er staðsett við Arnarbakka 2 í Breiðholti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.