Lífið

Rafrænir tónleikar undir Jökli

Marín Manda skrifar
Skipuleggjendur hátíðarinnar Pan Thorarensen ásamt Andra Má Arnlaugssyni.
Skipuleggjendur hátíðarinnar Pan Thorarensen ásamt Andra Má Arnlaugssyni. fréttablaðið/ernir
„Það eru bara nokkrir miðar eftir en við erum búnir að selja um 400 miða. Það er búin að vera sól hérna í þrjú ár í röð og ég er viss um að veðrið geri hátíðina enn flottari fyrir vikið því þá er svo mikil „mystík“ yfir öllu.

Þetta er svolítið eins og fara í annan heim,“ segir Pan Thorarensen, einn þriggja skipuleggjenda hátíðarinnar sem fer fram helgina 12. til 14. júlí.

Íslenska raftónlistarhátíðin Extreme Chill Festival – Undir jökli verður haldin á Hellissandi við rætur Snæfellsjökuls og þetta er í fjórða sinn sem hátíðin fer fram.

Um tuttugu íslenskir tónlistarmenn spila á hátíðinni í ár en þeir eru engir nýgræðingar. Einnig spila fjórir erlendir tónlistarmenn en það eru Mixmaster Morris frá Bretlandi, Mimetic frá Sviss, Fishimself frá Grikklandi og Le Sherifs frá Egyptalandi.

Hátíðin hefur fengið góða umfjöllun erlendis því breska dagblaðið The Guardian kaus tónlistarhátíðina eina af fimmtán athyglisverðustu tónlistarhátíðum í Evrópu árið 2012 sökum staðsetningar og umhverfis.

Hellissandur er lítill bær yst á norðanverðu Snæfellsnesi en á svæðinu eru nýuppgerð tjaldsvæði með salernis- og sturtuaðstöðu.

Dagskrá hátíðarinnar hefst á föstudagskvöldið í félagsheimilinu Röst kl. 20 en félagsheimilið er gamalt kvikmyndahús og því verða einnig nokkrir vídeólistamenn með sem sjá um allt myndefni á hátíðinni.

Miðverð á hátíðina er 6.900 krónur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.