Skoðun

Hve mikilvægur er eiður lækna?

Jón Þór Ólafsson skrifar
Dóttir mín þriggja ára fékk lungnabólgu á dögunum. Læknirinn sem greindi hana á Læknavaktinni sagði að um bakteríusýkingu væri að ræða svo sýklalyf væru málið. Ég spurði hvort greiningin væri örugg og vildi láta rannsaka hvort mögulega væri um veirusýkingu að ræða. Sýklalyf virka ekki á veirur en þau geta farið mjög illa með líkamann og ónæmiskerfið svo ef um veirusýkingu væri að ræða myndu þau aðeins gera ógagn. Læknirinn vildi ekki rannsaka það frekar og skrifaði upp á breiðvirkt sýklalyf sem virkaði svo ekki.

Nokkrum dögum síðar fór ég með fimm vikna son minn á Barnaspítala Hringsins þar sem hann var að fá sömu einkenni og systir hans. Mjög indæll læknir þar tók tveggja mínútna CRP-blóðpróf sem útilokaði bakteríusýkingu. Hann var því ekki settur á sýklalyf og önnur meðferð valin.

Hvers vegna fékk dóttir mín ekki svona tveggja mínútna CRP-próf áður en henni var gefið lyf sem gat gert veikindi hennar verri án nokkurs gagns? Er það sparnaðarstefna Læknavaktarinnar að spara þessi próf?

Trúnaðarsamband við sjúkling

Flestir læknar sverja eið sem oft er kenndur við Hippokrates, upphafsmann vestrænna læknavísinda. Genfarheit Alþjóðafélags lækna bindur lækninn með orðunum: „Ég mun hafa heilbrigði sjúklings míns í huga framar öllu öðru“ og í alþjóðasiðareglum lækna er því lýst yfir, að „[l]ækni ber einungis að taka mið af hagsmunum sjúklings, þegar hann veitir læknisþjónustu.“

Reglan að læknir skuli setja í forgang hagsmuni sjúklings sem hann meðhöndlar hverju sinni er góð, því að allt starf læknisins byggir á trausti sjúklingsins til hans. Siðareglur Læknafélags Íslands skylda því lækna til að varðveita það traust eins og segir í 13. grein þeirra: „Lækni er skylt að forðast af fremsta megni að hafast nokkuð að, er veikt gæti trúnaðarsamband hans við sjúklinga sína.“

Forgangsröðun

Ómögulegt er að bjóða öllum upp á bestu meðferð sem læknavísindin hafa upp á að bjóða. Til þess eru ekki til nægir fjármunir. Forgangsröðun er því óhjákvæmileg. En forgangsröðun meðferðarúrræða án fullnægjandi mats á ávinningi og kostnaði er óvísindaleg og ósiðleg. Slík forgangsröðun í opinberu heilbrigðiskerfi er á ábyrgð heilbrigðisyfirvalda.

Læknir er hvorki siðferðilega né fræðilega í aðstöðu til að meta hvort rétt sé að vanrækja að bjóða sjúklingi sínum upp á meðferðarúrræði sem bætir heilsu hans, sé það almennt í boði. „Lækni sæmir ekki að láta hagsmuni óviðkomandi sjúklingi hafa áhrif á ákvarðanir sínar, þegar hann veitir eða vísar á heilbrigðisþjónustu.“ eins og segir í 5. grein siðareglna Læknafélags Íslands.

Lækniseiðurinn

Stjórnvöld hafa skorið niður til heilbrigðismála. Heilbrigðisyfirvöld hafa vanrækt að gera vísindalega forgangsröðun á meðferðarúrræðum. Svo nú er þrýstingur á lækna að svíkja þann sjúkling sem hann meðhöndlar hverju sinni til að ná fram sparnaði fyrir heildarhag sjúklinga. Sem betur fer eru til siðareglur og eiðar til að leiðbeina læknum í slíkri stöðu. Spyrjum lækninn okkar: „Munt þú hafa heilbrigði mitt í huga framar öllu öðru við meðferð mína?“ Stöndum svo fast með læknum sem standa með okkur og standa fast á lækniseiðinum, líka á sparnaðartímum.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×