Gagnrýni

Síðasta kvöldið í sukkinu

Þorgils Jónsson skrifar
Ólafur Darri og María Birta standa sig sérstaklega vel í XL.
Ólafur Darri og María Birta standa sig sérstaklega vel í XL.
Kvikmyndir. XL. Leikstjórn: Marteinn Þórsson. Leikarar: Ólafur Darri Ólafsson, María Birta Bjarnadóttir, Helgi Björnsson, Elma Lísa GUnnarsdóttir, Þorsteinn Bachmann.

Það er engum ofsögum sagt að Ólafur Darri Ólafsson beri hitann og þungann af myndinni XL sem var frumsýnd um helgina enda er hann í nær hverjum ramma eða þá að myndin er séð út frá hans sjónarhorni. Leikstjóri myndarinnar er Marteinn Þórsson, sem stýrði síðast myndinni Roklandi, þar sem Ólafur fór einmitt líka með aðalhlutverkið.

Myndin er unnin út frá þekktu minni, þar sem aðalpersónan, alþingismaðurinn Leifur, er að komast á endastöð í drykkju, kvennafari og allra handa ólifnaði á meðan líf hans hrynur allt í kringum hann. Skemmst frá að segja er frammistaða Ólafs Darra með þeim ágætum að ef hann hefur ekki þegar sannað sig sem fremsti kvikmyndaleikari sinnar kynslóðar, þá ætti þessi mynd að taka af öll tvímæli. Siðblindinginn Leifur er ljóslifandi í meðförum hans; þingmaður sem er þvingaður í meðferð, af vini sínum forsætisráðherra, eftir að hafa orðið sér til skammar á almannafæri. Hann á í sambandi við unga stúlku (María Birta) en neitar að sætta sig við það að hjónabandi hans sé lokið. Hann ákveður að halda síðustu drykkjuveisluna áður en hann munstrar sig inn á Vog. Myndin snýst um síðasta sólarhringinn fyrir meðferð, veisluna og undirbúning hennar, ásamt því sem liðnum atburðum er skotið inn í til að skýra framvinduna.

Í það heila er XL vel gerð. Hún er hrá og töff í útliti og myndatakan oft á fleygiferð og í og úr fókus, sérstaklega þegar horft er frá sjónarhorni Leifs. Hljóðið er nokkuð gott og tónlistin í takti við söguna. Efnistökin eru ekki fyrir viðkvæma þar sem hispurslausar kynlífssenur eru alltíðar, enda stór hluti af sögunni. Myndin er grimm að mörgu leyti, en fjallar einmitt um grimman heim alkóhólisma.

Handritið er líka ágætt en framvindan er frekar hæg, aukapersónurnar nokkkuð lengi að finna sinn sess í sögunni og endirinn helst til rislítill.

Ólafur Darri er, eins og fyrr segir, frábær í sínu hlutverki, en aukaleikararnir standa sig flestir vel, sérstaklega María Birta, sem er vaxandi leikkona, og sjálfur Helgi Björns, sem helsti vinur Leifs og álíka innrættur.

XL er ágæt mynd, en í heildina er hún ekki alveg nógu skemmtileg né nógu grípandi til að geta talist afbragðsgóð.

Niðurstaða: Eftirminnileg frammistaða Ólafs Darra ber uppi vel gerða mynd, sem nær því þó ekki að teljast afbragðsgóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.