Innlent

Útlendingar eiga innan við 1,5 prósent jarða á Íslandi

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur kynnt ríkisstjórninni frumvarp sem gerir það að kröfu að fólk utan hins Evrópska efnahagssvæðis (EES) þurfi að vera íslenskir ríkisborgarar til að kaupa land á Íslandi. Þá er reglugerð í undirbúningi sem kveður á um að borgarar innan EES-svæðisins geti aðeins keypt hér á landi með því skilyrði að einhver efnahagsstarfsemi fari fram á jörðunum.

Ögmundur segir að með þessu sé verið að koma í veg fyrir að útlendingar geti sankað að sér jörðum. „Þú getir ekki einfaldlega verið að safna hér jörðum bara til að safna jörðum og láta eins og þú lifir á tunglinu. Komir af og til á jarðirnar og síðan dofnar smám saman yfir byggðinni vegna þess að það er engin efnahagsstarfsemi sem fylgir eignarhaldinu.“

Jarðir að fullu í eigu útlendinga eru 28 talsins, eða 0,37 prósent allra jarða, og að auki eiga þeir hluta í 73 jörðum, eða 1,33 prósentum allra jarða. Samtals eiga þeir, að fullu eða hluta, 101 jörð.

Þetta þarf þó ekki að vera tæmandi listi þar sem útlendingar geta átt í eignarhaldsfélögum. Langflest þeirra eiga aðeins eina jörð.

Magnús Leópoldsson fasteignasali segir örfá tilvik koma upp árlega þar sem útlendingar kaupa jarðir. Langoftast séu það menn sem eru mjög tengdir Íslandi, hafa komið árum saman til veiða, svo dæmi sé nefnt. Ögmundur segir líka mikilvægt að taka á jarðasöfnun einstaklinga. Auðmenn safni að sér jörðum og þurfi ekki að horfa í peninginn sem hækki jarðaverð.

„Það hefur orðið verðsprenging á landi af völdum auðmenna, ekki bara erlendra heldur innlendra líka. Þetta hefur keyrt úr hófi fram og gert það að verkum að það hefur reynst mjög erfitt fyrir fjölskyldur sem vilja halda bújörðum í landbúnaði að gera nákvæmlega það.“

Magnús segist ekki kannast við jarðasöfnun. Helst hafi það verið fyrirtækið Lífsval, en Landsbankinn er nú að selja jarðir þess.

„Ég hef í 28 ár verið að selja jarðir og ég veit ekki um neinn sem safnar þeim. Ég teldi það þvert á móti vera kost hjá sumum að kaupa sér meira land.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×