Innlent

Apótekin hugsanleg neyslurými

Vonast er til þess að neyslurými myndu draga úr skaða í umhverfinu. Þessar sprautur fundu vegfarendur á bílastæði í Keflavík fyrir nokkru.
Vonast er til þess að neyslurými myndu draga úr skaða í umhverfinu. Þessar sprautur fundu vegfarendur á bílastæði í Keflavík fyrir nokkru.
Velferðarráðherra og formaður velferðarnefndar Alþingis segja að til greina komi að skoða þörfina á svokölluðu neyslurými fyrir sprautufíkla. Slík rými hafa verið starfrækt í nágrannalöndunum og dregið úr smitsjúkdómum, aukið samtal við fíkla og komið í veg fyrir dauðsföll af völdum of stórra skammta. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir apótekin einu staðina sem hafa verið ræddir í samhengi við neyslurými hér á landi. "Það hefur komið til álita að menn gætu leitað til apóteka undir eftirliti og fengið umsjón, ráðgjöf, nálar og jafnvel lyf,“ segir ráðherra. "Það er sjálfsagt og eðlilegt að taka svona mál upp á hverjum tíma, hvernig hægt er að sporna við áframhaldandi notkun eða smithættu. En það er of snemmt að segja hvort þetta úrræði verður tekið upp, það er svo margt sem þarf að sinna.“ Velferðarnefnd Alþingis hefur ekki tekið málefni sprautufíkla sérstaklega fyrir, en Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður nefndarinnar, segir vert að opna umræðu um málið. Um opnun neysluherbergis segir hún umræðuna of stutt á veg komna til að segja af eða á. "Að mínu mati er svona þjónusta líkleg til að auka lífsgæði þessa fólks, draga úr skaða í umhverfinu og svo eykur þetta líkurnar á því að fólk hætti þar sem það fær ráðgjöf.“ Unnur Brá Konráðsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í velferðarnefnd, ætlar að opna umræðu um sprautufíkla og neyslurými á nefndarfundi í dag. "Þetta er eitthvað sem við ættum að skoða og fá ráðuneytið í spjall um þetta.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×