Innlent

Ríki og borg í viðræður um neyslurými fyrir sprautufíkla

Sunna Valgerðardóttir og Svavar Hávarðarson skrifar
Heiða Kristín Helgadóttir varaformaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
Heiða Kristín Helgadóttir varaformaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
Heiða Kristín Helgadóttir, stjórnarformaður Bjartar framtíðar og varaformaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir tímabært að skoða aðrar leiðir en farnar hafi verið til að mæta þörfum sprautufíkla. Í því ljósi hafa forsvarsmenn Besta flokksins rætt um þörfina á sérstöku neyslurými fyrir sprautufíkla í Reykjavík. Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs, telur um færa leið að ræða, að því gefnu að sannað sé að um árangursríka aðferð sé að ræða.

Heiða Kristín segir mikinn vilja hjá Besta flokknum að skoða þessa leið. Hún bendir á að starfsemi neyslurýma hafi gefist vel víða erlendis og því sé nauðsynlegt að skoða þann möguleika hér á landi. „Þetta er eitthvað sem við höfum rætt og við munum einnig taka þetta málefni upp innan Bjartrar framtíðar," segir hún. „Það er ljóst að við þurfum að fara að nálgast málin með raunhæfari hætti."

Björk segir að innan borgarinnar sé unnið samkvæmt því að leita leiða til að minnka þann skaða sem hlýst af neyslu. „Ef það er mat fagfólks að þessi leið, að fá fólk til að sprauta sig á öruggum stað og veita því um leið ráðgjöf, sé fær þá er ég jákvæð gagnvart því. En þá vil ég líka vita, með áreiðanlegum hætti, hvort um raunverulegan árangur sé að ræða af þessu starfi." Björk bætir við að það sé alltaf spurning hvenær svo langt er gengið í skaðaminnkandi þjónustu að ástandi þeirra sem eru í svo alvarlegri fíkn sé viðhaldið. „Við verðum að gæta þess að við séum ekki að viðhalda neyslu, en nauðsynlegt að skoða þetta í þaula," segir Björk.

Heiða Kristín stýrir hópi um málefni utangarðsfólks í Reykjavík. Hópurinn fundar í næstu viku með fulltrúum þingsins og velferðarráðuneytisins þar sem málin verða rædd. Skaðaminnkandi nálgun sé ein af stefnum Reykjavíkurborgar og þetta sé hluti af því að mæta fólki þar sem það er statt. „Það er mjög rökrétt næsta skref. Það er mikill vilji til að skoða þetta og halda þessu á lofti."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×