Skoðun

Hentistefna Evrópusambandsins

Sigríður Á. Andersen skrifar
Það hefur vakið athygli erlendra fjölmiðla að Evrópusambandið veitti ekki bönkum og fjármagnseigendum á Kýpur sömu fyrirgreiðslu og það hefur veitt bönkum í öðrum Miðjarðarhafslöndum sínum. Menn velta mjög vöngum yfir þessu.

Hvernig stendur á því að af öllum innstæðueigendum í Evrópusambandinu þurfa aðeins Kýpverjar að sætta sig við að tapa hluta innistæðna sinna? Hvað veldur þessari hörku núna allt í einu? Svarið blasir við. Það liggur fyrir að stór hluti innistæðnanna er í eigu aðila utan Evrópusambandsins. Þess vegna finnst Evrópusambandinu í lagi að þessir bankar fari á hliðina. Rússar eru eigendur stórs hluta innistæðna í kýpverskum bönkum.

Evrópusambandinu er slétt sama um þessar innstæður. Er þetta ekki sama Evrópusambandið og hefur ofsótt Íslendinga undanfarin fjögur ár fyrir þær meintu sakir að mismuna innstæðueigendum eftir því hvar í landi þeir væru?

Ofsóknir

Evrópusambandið stundaði þessar ofsóknir á hendur Íslendingum þrátt fyrir að neyðarlögin íslensku hefðu veitt innstæðueigendum á Icesave forgang umfram skuldabréfaeigendur sem voru meðal annarra Seðlabanki Íslands og íslenskir lífeyrissjóðir.

Rússar munu tapa miklu á falli kýpversku bankanna, því miður fyrir þá. Það vill hins vegar til að Kýpverjar sjálfir eiga innstæður í þessum sömu bönkum, því miður fyrir þá. Lítil eyþjóð í Evrópusambandinu vegur ekki þungt þegar í harðbakkann slær í Brussel og Frankfurt.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×