Innlent

Gunnar fundinn sekur um trúnaðarbrot

Stígur Helgason skrifar
Gunnar og Þórarinn takast í hendur við þingfestingu málsins í héraðsdómi.
Gunnar og Þórarinn takast í hendur við þingfestingu málsins í héraðsdómi. Fréttablaðið/GVA
Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi í gær Gunnar Þ. Andersen, fyrrverandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins, fyrir brot á þagnarskyldu með því að koma upplýsingum um viðskipti þingmannsins Guðlaugs Þórs Þórðarsonar til fjölmiðla í því skyni að koma á hann höggi.

Saksóknari hafði farið fram á að Gunnar yrði dæmdur til greiðslu tveggja til þriggja milljóna króna sektar eða skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar, að hámarki í þrjá mánuði. Niðurstaða dómsins var að sekta Gunnar um tvær milljónir.

Þórarinn Már Þorbjörnsson, fyrrverandi starfsmaður Landsbankans, sem Gunnar fékk til að afla gagnanna úr bankanum, var dæmdur til að greiða einar milljón í sekt. Hann sagði fyrir dómi að hann hefði talið Gunnar vera að undirbúa rannsókn á málefnum Guðlaugs hjá Fjármálaeftirlitinu, en dómurinn segir þá skýringu ótrúverðuga.

Í dómnum segir að Gunnar hafi gerst sekur um alvarlegt trúnaðarbrot. Verði sektirnar ekki greiddar innan fjögurra vikna þarf Gunnar að sæta fangelsi í 44 daga og Þórarinn í fjörutíu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×