Skoðun

Skuldir ríkissjóðs eru skuldir okkar allra

Sigríður Á. Andersen skrifar
Ríkissjóður skuldar um fimm milljónir króna á hvern Íslending. Hver Íslendingur er í raun með fimm milljóna króna yfirdrátt á bakinu vegna skulda ríkisins. Hvert mannsbarn í landinu greiðir um 300 þúsund krónur í vexti á ári af yfirdrætti ríkissjóðs. Stór hluti af tekjuskatti einstaklinga til ríkisins fer í þennan sligandi vaxtakostnað. Þetta eru nöturlegar staðreyndir.

Vonir hafa verið uppi um að með samningum við kröfuhafa föllnu bankana takist að minnka skuldaklafa hvers Íslendings úr fimm milljónum í fjórar milljónir króna. Allir stjórnmálaflokkarnir eru sammála um, og hafa alltaf verið, að við uppgjör á þrotabúum föllnu bankanna verði hagsmuna Íslands gætt þótt flokkarnir gangi vissulega mjög mislangt í því að deila mögulegum ávinningi út fyrirfram með kosningaloforðum.

Eins og menn þekkja af rekstri eigin heimilis er það ekki svo að þótt takist að lækka yfirdrátt úr 50 þúsund í 40 þúsund krónur að menn hafi þar með eignast nýtt fé. Mínusinn á bankareikningnum er vissulega ekki jafn stór og áður en engu að síður til staðar. Allir hljóta að stefna að því að eyða mínusnum alveg fremur en að auka hann aftur.

Þess vegna er það ekki ábyrgt að lofa skuldugu fólki peningum sem eru ekki til og verða ekki til í ríkissjóði á næstunni. Það væri einfaldlega loforð um að gera skuldir okkar sumra að skuldum okkar allra. Almenn skattalækkun er eina raunhæfa og sanngjarna leiðin til þess að auka ráðstöfunartekjur okkar allra. Hún hefur að auki þann kost að hvetja menn til aukinnar verðmætasköpunar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×