Tónlist

Hápunktur hjá þungarokkurum

Dimma og Sólstafir verða með sameiginlega tónleika í Austurbæ á fimmtudag. Dimma gaf út plötuna Myrkraverk á síðasta ári sem hlaut fínar viðtökur. Fjögur lög af henni hafa komist á vinsældarlista Rásar 2.

Undanfarið hefur Dimma verið á tónleikaferð um landið ásamt Sólstöfum og hápunkturinn á þeirri ferð eru tónleikarnir í Austurbæ. Dimma mun flytja Myrkraverk í heild sinni, ásamt eldri lögum og Sólstafir munu m.a. leika efni af plötunni Svartir sandar sem fengið hefur góða dóma víða um heim.

Sólstafir voru einmitt að senda frá sér nýtt tónleikamyndband við lagið Æra þar sem upptökur frá áhorfendum spila stórt hlutverk. Áhorfendur voru beðnir um að taka upp myndskeið á síma og senda inn, sem skilaði sér í líflegu myndefni.

„Nú er annar hver maður með myndbandsupptökuvél í vasanum og okkur fannst tilvalið að nýta okkur það,“ segir Sæþór Maríus, gítarleikari Sólstafa, sem lofar flottum tónleikum.

„Flest okkar lög eru í lengri kantinum og það er sjaldan sem við höfum tækifæri til að spila mörg þeirra á tónleikum, en það ætlum við að gera í Austurbæ. Þetta verður allur pakkinn.“

Ekkert aldurstakmark er á tónleikana sem hefjast klukkan 20.

Dimma.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×