Innlent

Karlforstjóri byggir á kvenlægum gildum

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Hannes Frímann Hrólfsson er nýr forstjóri Auðar Capital. Hann tók við starfinu af Kristínu Pétursdóttur. 
Fréttablaðið/Stefán
Hannes Frímann Hrólfsson er nýr forstjóri Auðar Capital. Hann tók við starfinu af Kristínu Pétursdóttur. Fréttablaðið/Stefán
Hannes Frímann Hrólfsson er nýr forstjóri Auðar Capital. Hann tók við starfinu af Kristínu Pétursdóttur, sem gegnt hefur stöðunni frá upphafi, og er jafnframt fyrsti karlforstjóri fyrirtækisins.

Auður Capital var stofnað af þeim Höllu Tómasdóttur og Kristínu Pétursdóttur árið 2007. Fyrirtækið boðaði frá upphafi nýja nálgun í viðskiptaháttum og kenndi sig opinberlega við kvenlæg gildi, minni áhættusækni og öruggari viðskiptahætti.

Spurður hvort ekki sé óheppilegt að fyrirtæki sem byggir á kvenlægum gildum sé stjórnað af karli segir Hannes svo ekki vera. „Við vinnum vissulega eftir sömu áherslum og hugmyndafræði og í upphafi. En ég hafna því að það sé endilega kvenlægt. Ég trúi því að slík vinna geti átt jafnt við um karla sem konur.“

Síðasta rekstrarár fyrirtækisins var það besta í sex ára sögu þess. Að sögn Hannesar einkenndist það af auknum umsvifum og góðri ávöxtun. Alls námu tekjur um 808 milljónum króna, en það er um 300 milljóna króna hækkun á milli ára. Félagið er nú skuldlaust og nemur eigið fé þess um 1,2 milljörðum. Einnig hefur verið lokið við fjármögnun á nýjum framtakssjóði, Eddu.

Alls munu 30 fjárfestar leggja sjóðnum til fé, þar með taldir stærstu lífeyrissjóðirnir. Að sögn Hannesar kemur Edda til með að fjárfesta í traustum, óskráðum fyrirtækjum á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×