Lífið

Blogga um áhugaverð heimili unga fólksins

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Gyða Lóa Ólafsdóttir og Dóra Hrund Gísladóttir blogga um heimili unga fólksins sem gerir heimilislegt með ódýrum lausnum.
Gyða Lóa Ólafsdóttir og Dóra Hrund Gísladóttir blogga um heimili unga fólksins sem gerir heimilislegt með ódýrum lausnum. Fréttablaðið/Anton
„Okkur langaði að bæta bloggi á borð við þetta inn í flóruna þar sem venjuleg heimili eru í aðalhlutverki," segir Gyða Lóa Ólafsdóttir mannfræðingur, sem heldur úti blogginu Bonaparte.is ásamt vinkonu sinni, myndlistarkonunni Dóru Hrund Gísladóttur.

Vinkonurnar stofnuðu bloggið í lok apríl og hafa fengið góðar viðtökur. Báðar eru þær miklir fagurkerar og hafa áhuga á innanhússhönnun. Þeim fannst þó vanta blogg sem einbeitti sér að því hvernig ungt fólk hefur komið sem fyrir með sniðugum og ódýrum lausnum.

„Þetta er ákveðið mótvægi við öll innanhússbloggin sem til eru þar sem heimilin eru hlaðin dýrum hönnunarmunum og húsnæðið stórt. Þó að það sé alltaf gaman að skoða þannig fannst okkur þetta vanta," segir Gyða en stöllurnar taka bæði myndir af heimilum fólks og vinnustofum.

„Það er gaman og fróðlegt að sjá hvernig ungir einstaklingar hafa komið sér fyrir og gert heimilislegt í litlum rýmum og með munum sem ekki kosta mikið."

Gyða og Dóra taka allar myndirnar sjálfar. Þær reyna að leita uppi sniðug heimili, hér heima og líka hjá íslenskum námsmönnum erlendis. „Nú síðast fengum við tvær stúlkur í skiptinámi í París til að mynda heimili sitt fyrir okkur því þó við hefðum viljað komumst við ekki í helgarferð til Frakklands í þetta sinn."

Gyða segir allar ábendingar um skemmtileg heimili vel þegnar og hvetur fólk til að senda þeim póst á bonaparte@bonaparte.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.