Lífið

Inga Lind stýrir Biggest Loser

Sara McMahon skrifar
Inga Lind Karlsdóttir stýrir íslensku útgáfunni af hinum vinsælu sjónvarpsþáttum Biggest Loser.
Inga Lind Karlsdóttir stýrir íslensku útgáfunni af hinum vinsælu sjónvarpsþáttum Biggest Loser. Fréttablaðið/anton
„Það eru margir sem koma að gerð þáttanna og við vinnum þetta allt sem teymi. Þetta verður töluvert ólíkt því þegar ég vann að gerð Stóru þjóðarinnar, þá var ég ein með tökumanni,“ segir sjónvarpskonan Inga Lind Karlsdóttir.

Hún kemur til með að stýra sjónvarpsþáttunum Biggest Loser sem sýndir verða á Skjá einum í byrjun næsta árs.

Þættirnir eru byggðir á erlendri fyrirmynd og munu keppendur dvelja á heilsuhótelinu á Ásbrú á meðan á tökum stendur. Læknar, sálfræðingar, næringarfræðingar og líkamsræktarþjálfarar munu svo aðstoða keppendur við að breyta lífi sínu til batnaðar.

„Þetta er eitt stærsta sjónvarpsverkefni síðustu ára á Íslandi og það er gaman að fá tækifæri til þess að vera partur af því. Þetta er jafnframt frábært tækifæri fyrir þá sem vilja breyta lífi sínu til hins betra.“

Inga Lind hefur verið búsett í Barcelona á Spáni ásamt fjölskyldu sinni frá árinu 2012. Hún verður með annan fótinn hér heima á meðan tökur á þáttunum fara fram en segir það lítið mál. „Þökk sé lággjaldaflugfélögunum sem fljúga út um allt,“ segir hún að lokum hlæjandi.

595 manns hafa þegar skráð sig til þátttöku frá því í gærmorgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.