Lífið

Leyfðu þér óhollustu með góðri samvisku

Marín Manda skrifar
"Hlustaðu á líkama þinn,“ segir Róbert Traustason, þjálfari og rekstrarstjóri Boot Camp.
"Hlustaðu á líkama þinn,“ segir Róbert Traustason, þjálfari og rekstrarstjóri Boot Camp.
„Haltu þig við hollustuna sem þú þekkir og hreyfðu þig því í þau skipti sem þú vilt leyfa þér óhollustu. Þá geturðu notið þess með góðri samvisku,“ segir Róbert Traustason, þjálfari og rekstrarstjóri Boot Camp.

Sumarið er því miður oft sá tími sem sumir láta árangur vetursins fara forgörðum. Sumarbústaðaferðir, grillveislur og fleira valda því oft að fólk missir sig gjörsamlega í sukkið.

Það er þó hægt að gera ýmislegt til að takmarka þann skaða með því meðal annars að halda sínu striki er kemur að æfingum og hollustu almennt.

Taktu góða styrktaræfingu áður en þú ferð í óhollustuna. Líkaminn getur þá nýtt hluta af þeim hitaeiningum sem hann fær í vöðvauppbyggingu og að fylla á orkubirgðirnar í stað þess að umbreyta þeim í fitu.

Þú getur tekið æfinguna heima fyrir ef það hentar betur og nýtt þér æfingar eins og armbeygjur, framstig og upphífingar til þess.

Veldu eina tegund óhollustu í hvert sinn. Ef þú velur að fá þér ís þá borðar þú fyrst góðan og hollan kvöldverð áður en þú færð þér ísinn. Ekki fá þér fyrst djúpsteiktan mat, gos með því, svo ísinn, loks nammi, snakk og áfengi að lokum.

Veldu þér frekar eitthvað eitt og njóttu þess með góðri samvisku og líkami þinn mun þakka þér fyrir það daginn eftir.

Ef það er afgangur af því sem þú keyptir, hentu því þá strax áður en þú ferð að sofa. Ef þú hefur fengið nóg í bili þá er líkami þinn að senda þér skilaboð og þú ættir að hlusta á hann með því að losa þig við restina.

Annars bíður þín ekkert nema vanlíðan eða freisting næsta dag sem erfitt er að standast. Daginn eftir óhollustuna er um að gera að drekka vel af vatni og hreyfa sig aðeins, hleypa því versta út með svitanum.

Það er engin þörf á að misþyrma sér eða „refsa sér“ heldur fara á æfingu með því hugarfari að þér líði betur eftir hana. Það hindrar þig líka í að taka annan sukkdag beint í kjölfarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.