Lífið

Sumarliði færist skrefi nær því að komast í geiminn

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Sumarliði Þorsteinsson býr sig undir þolpróf sem fram fer 12. ágúst. Ef hann verður efstur í þolprófinu fær hann að fara í geimfaraþjálfun í Kennedy Space Center og kemst mögulega út í geim.
Sumarliði Þorsteinsson býr sig undir þolpróf sem fram fer 12. ágúst. Ef hann verður efstur í þolprófinu fær hann að fara í geimfaraþjálfun í Kennedy Space Center og kemst mögulega út í geim. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
„Nú er ég bara að undirbúa mig fyrir þolprófið sem fer fram 10. ágúst,“ segir skrúðgarðyrkjusérfræðingurinn Sumarliði Þorsteinsson, en hann sigraði með yfirburðum netkosningu í Svíþjóð á vegum Apollo Space Academy og herrasnyrtimerkisins AXE og færist nú skrefi nær því að komast alla leið út í geim.

AXE hóf samstarf með hinum heimsþekkta tunglfara Buzz Aldrin, og efndi til keppni þar sem 22 einstaklingar eiga tækifæri á því að komast út í geim.

Keppnin fór af stað í sextíu löndum í janúar, en Sumarliði var þá búsettur í Svíþjóð og gat því skráð sig til keppni þar í landi.

„Keppnin skiptist eiginlega í þrjár síur. Fyrst er það þessi atkvæðagreiðsla sem er búin, því næst er þolpróf sem fer fram í hverju landi fyrir sig og þeim sem sigra þolprófin er svo boðið til Flórída í Kennedy Space Center og fara í alvöru geimfaraþjálfun,“ segir Sumarliði, sem undirbýr sig nú af krafti undir þolprófið mikla. „Ég æfi mikið úti, hleyp og syndi, og fer í ræktina.“

Alls taka tólf manns þátt í þolprófinu í Svíþjóð í ágúst en aðeins sigurvegarinn fær að fara til Flórída. Töluvert fleiri keppa í þolprófunum í hinum löndunum.

„Það eru um 200 manns sem taka þátt í Bretlandi svo líkurnar mínar eru þannig lagað séð góðar. Ég þarf bara að sigra þessa ellefu,“ segir Sumarliði.

Bjarni Tryggvason, geimfari.
„Í geimfaraþjálfuninni fær maður að fljúga í flugvél sem slökkt verður á og hún látin droppa og svo verður farið með mann í þotu á tvöföldum hljóðhraða. Svo verður farið í svokallaða togkraftskúlu, eða „g-force“ kúlu, þar sem hraðinn og togkrafturinn er alveg þvílíkur. Þetta yrði alveg fáránlega skemmtilegt.“

Eini íslenski geimfarinn

Bjarni Tryggvason er eini íslenski geimfarinn til þessa. Bjarni er fæddur í Reykjavík en hefur þó lengst af búið í Vancouver í Kanada. Hann fór út í geim með geimferjunni Discovery 7 hinn 19. ágúst árið 1997 ásamt fimm öðrum áhafnarmeðlimum.

Geimferðin tók 11 daga, 20 klukkustundir og 28 mínútur.

Hér fyrir neðan má sjá tvö kynningarmyndbönd fyrir geimferðirnar á vegum AXE.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.