Lífið

Fékk hugmyndina í fæðingarorlofinu

Kristjana Arnarsdótir skrifar
Stefanía Ósk Arnardóttir fékk hugmyndina að Instaprent.is þegar hún var í fæðingarorlofi. Þá var hana farið að skorta pláss fyrir allar myndirnar af frumburðinum, Degi Dreka.Fréttablaðið/Arnþór
Stefanía Ósk Arnardóttir fékk hugmyndina að Instaprent.is þegar hún var í fæðingarorlofi. Þá var hana farið að skorta pláss fyrir allar myndirnar af frumburðinum, Degi Dreka.Fréttablaðið/Arnþór
„Hugmyndin kviknaði þegar ég var í fæðingarorlofi og kunni mér ekki hóf í myndatökum af frumburðinum. Þá stútfylltist síminn minn af myndum sem ég ætlaði alltaf að láta prenta út en ég náði aldrei að koma í verk,“ segir Stefanía Ósk Arnardóttir, sem stofnað hefur fyrirtækið Instaprent.

Fyrirtækið býður upp á þann möguleika að prenta út myndir af samfélagsforritinu Instagram á púða, segla eða límmiða.

„Mig var farið að skorta pláss á veggina heima og fór því að velta fyrir mér öðrum leiðum til þess að koma myndunum mínum fyrir. Mér fannst leiðinlegt að margar frábærar myndir sem mér þótti vænt um væru aðeins til í símanum eða á netinu,“ segir Stefanía.

Hún segir pöntunarferlið vera einfalt. „Þú velur þér vöru inn á Instaprent.is, skráir þig á Instagram og hannar vöruna með þínum eigin myndum. Nokkrum dögum síðar færðu púðana, seglana eða límmiðana svo senda í pósti.“

Stefanía segir viðtökurnar komið sér mjög skemmtilega á óvart.

Hægt er að panta sér segla með Instagram-myndum að eigin vali.
„Instaprent hefur fengið mikla athygli og góðan stuðning. Það virðist vera spenningur fyrir þessari hugmynd enda eiga margir fallegar og skemmtilegar myndir á Instagram.“

Spurð að því hvort heimilið sé því ekki orðið drekkhlaðið af myndum svarar Stefanía því játandi. „Ég þarf samt bráðum að fara að gæta þess að kaffæra ekki heimilið.“

Facebook-síðu Instaprents má finna hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.