Lífið

Lára Rúnars flúði í land vegna sjóveiki

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Fjölskyldan fagnar því að hafa fast land undir fótum á Borgarfirði eystri í gær.
Fjölskyldan fagnar því að hafa fast land undir fótum á Borgarfirði eystri í gær.
Áhöfnin á Húna lagði upp í hringferðina um landið í fyrradag. Siglingin frá Akureyri til Húsavíkur gekk svo nærri einu konunni í bandinu að hún neitaði að fara aftur um borð og fór landleiðina til Borgarfjarðar eystri.

"Það gengur ekki alveg eftir áætlun. Við þurftum að grípa til annarra ráðstafana út af sjóveiki,“ segir Lára, spurð hvernig lífið um borð í Húna gangi. „Ég ber það fyrir mig að fjögurra ára dóttir mín, sem er með í för, hafi orðið sjóveik á leiðinni frá Akureyri til Húsavíkur, en sannleikurinn er sá að ég var alveg eins sjóveik og hún.“



Lára, maður hennar Arnar Þór, sem er trommari í bandinu, og dóttir þeirra fóru því landleiðina til Borgarfjarðar eystri eftir tónleikana á Húsavík, enda sautján tíma sigling ekki freistandi fyrir sjóveika. „Við sögðum bara pass, takk fyrir kærlega,“ segir Lára.

Lára er af sjómannaætt frá Ísafirði, bæði afi hennar og langafi voru skipstjórar, og segist hún skammast sín pínulítið fyrir sjóveikina. „Ég hef sjómennskuna í blóðinu og vonandi tekur ekki nema tvo, þrjá daga að venjast þessu lífi. Ég mun verða með í siglingunni frá Höfn til Vestmannaeyja, enda verður dóttirin þá komin til afa síns og ömmu, og vonandi gengur það betur. Ég verð bara að harka af mér.“



Þótt hljómsveitin kalli sig Áhöfnina á Húna er það ekki alveg réttnefni. Á bátnum er átta manna áhöfn auk Fjólu sem sér um matseldina ofan í hópinn um borð. „Svo eru þrír kvikmyndatökumenn með í för, þannig að þetta er heljarinnar hópur,“ segir Lára.

Fyrstu tónleikarnir voru á Húsavík í fyrrakvöld og gengu alveg frábærlega vel að sögn Láru. „Ég held að flestir Húsvíkingar hafi mætt og þetta tókst eins vel og hægt var að hugsa sér.“



Í kvöld verður bein útsending frá tónleikunum á Reyðarfirði og síðan heldur Áhöfnin áfram hringinn um landið og endar á Akureyri þann 20. júlí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.