Lífið

Gáfu Flateyringum folfvöll

Sara McMahon skrifar
Óli tröllabarn, Geiri glæsimenni og Siggi Bahama við störf sín.
Óli tröllabarn, Geiri glæsimenni og Siggi Bahama við störf sín. Mynd/spessi
„Íbúar Flateyrar eru svo ofsalega vinalegir og tóku okkur opnum örmum og okkur langaði að gefa eitthvað til baka,“ segir Sigurður Magnússon, betur þekktur sem Siggi Bahama. Hann og tveir vinir hans smíðuðu folfvöll og gáfu Flateyringum að gjöf.

Siggi dvaldi fyrir vestan við tökur á kvikmyndinni París norðursins og smíðaði folfvöllinn ásamt tveimur öðrum úr tökuliðinu. „Við vorum þrír í þessu: ég, Óli tröllabarn og Geiri glæsimenni. Við smíðuðum þetta úr rusli sem við fundum á haugunum á Ísafirði þannig að þetta kostaði ekki mikið, framleiðendur myndarinnar lögðu svo út fyrir því sem upp á vantaði.“

Folfvöllurinn stendur við snjóflóðavarnagarð bæjarins og var opnaður við hátíðlega athöfn daginn áður en tökuliðið hélt til síns heima. „Það var bæjarhátíð daginn áður en við fórum og þá var klippt á borðann og svæðið opnað. Mér skilst að einn íbúanna ætli svo að taka sig til og leigja út diska til ferðamanna.“

Siggi hóf sjálfur að spila íþróttina stuttu eftir að hann flutti í íbúð við Klambratún, en þar er vinsæll folfvöllur. Hann segir íþróttina stórskemmtilega og mjög ávanabindandi. „Þetta er rosalega skemmtileg íþrótt og reglurnar eru alveg eins og í golfi, nema í folfi er maður með frisbí í stað kylfu. Sá sem klárar hringinn á sem fæstum köstum sigrar,“ segir hann að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.