Lífið

Hönnuðu stafrænan ratleik fyrir ferðamenn

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Ragnar Hrafnkelsson og Smári Gunnarsson hönnuðu appið Galdrastafi. Appinu má líkja við stafrænan ratleik sem hugsaður er fyrir ferðamenn.
Ragnar Hrafnkelsson og Smári Gunnarsson hönnuðu appið Galdrastafi. Appinu má líkja við stafrænan ratleik sem hugsaður er fyrir ferðamenn.
„Við vildum búa til eitthvað skapandi sem tengir saman sögu og menningu Vestfjarða,“ segir Smári Gunnarsson, sem hannað hefur appið Galdrastafi ásamt Ragnari Hrafnkelssyni.

Appið er hannað fyrir ferðamenn sem sækja Vestfirði heim, en skilyrði er að þeir hafi iPhone, iPad eða iPod touch við höndina. Appið er eins konar stafrænn ratleikur og er notkun þess einföld.

„Þegar þú ert komin með Galdrastafi í símann þá skannarðu svokallaðan QR-kóða með appinu á þar til gerðum skiltum sem komið hefur fyrir á tíu stöðum víðs vegar um Vestfirði. Þegar búið er að skanna kóðann aflæsist verkið og það spilast í símtækinu,“ segir Smári.

Hvert verk fjallar beint eða óbeint um þann stað sem skiltunum hefur verið komið fyrir á. Smári og Ragnar fengu um tuttugu listamenn með sér í verkefnið en flestir þeirra eiga rætur að rekja til Vestfjarða. Svavar Knútur, Borko, Ylja og For a minor reflection eiga öll tónverk í appinu.

„Galdrastafir er fyrsta stóra snjallsímaverkefnið sem tengist Vestfjörðum og þetta verður vonandi til þess að fólk sjái betur kostina í að nota þessa tækni í tengslum við ferðaþjónustu á svæðinu,“ segir Smári.

Appið er ókeypis og er þegar fáanlegt í App Store fyrir iOS-kerfi, bæði á ensku og á íslensku. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni Galdrastafir.is.

Galdrastafir from Westfjords iPhone App on Vimeo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.