Lífið

Leikur einfaldan og áhrifagjarnan Hrein Skjöld

Sara McMahon skrifar
Ágúst Bent, Steindi jr. og Magnús Leifsson skrifa handritið að nýrri sjónvarpsþáttaröð sem sýnd verður á Stöð 2 á nýju ári.
Ágúst Bent, Steindi jr. og Magnús Leifsson skrifa handritið að nýrri sjónvarpsþáttaröð sem sýnd verður á Stöð 2 á nýju ári. Fréttablaðið/arnþór birkisson
„Aðalpersónan heitir Hreinn Skjöldur og þáttaröðin fjallar um hann, bestu vinkonu hans og bróður hennar. Þetta eru sjö þættir og við nýtum hverja einustu sekúndu í brandara. Dagurinn sem serían fer í loftið verður stór dagur fyrir grínunnendur,“ segir grínistinn Steinþór Hróar Steinþórsson, eða Steindi jr., um nýja sjónvarpsþáttaröð sem hann skrifar og framleiðir ásamt Ágústi Bent Sigbertssyni og Magnúsi Leifssyni. Tökur á þáttunum hefjast í haust og verða þeir sýndir á Stöð 2 snemma á næsta ári.

Steindi fer með hlutverk Hreins Skjaldar og lýsir persónunni sem einföldum manni og áhrifagjörnum. Söguþráður þáttanna er að venju ýktur og óvenjulegur og kemst Hreinn Skjöldur meðal annars í tæri við andsetinn skólastjóra, neðanjarðarátkeppni og djammara sem yfirtaka Herjólf.

Þetta er í fyrsta sinn sem þremenningarnir skrifa handrit að sjónvarpsþáttaröð af þessu tagi en áður höfðu þeir skrifað handrit að sketsaþáttum sem sýndir voru á Stöð 2. „Þetta var mikil vinna og við skráðum okkur meðal annars í ritsmiðju hjá Hafsteini Gunnari [Sigurðssyni] og Árna Ólafi [Ásgeirssyni]. Svo lágum við yfir bókum og öðru efni á netinu,“ segir hann.

Inntur eftir því hvort honum þyki handritsskrifin skemmtilegri en leikurinn segist Steindi ekki geta gert upp á milli. „Þetta er ólíkt en jafn skemmtilegt. Þegar maður er búinn að skrifa í einhvern tíma saknar maður þess að fara á sett og djöflast allan daginn. En svo þegar maður er búinn að vera lengi á setti, þá saknar maður þess að geta sest niður, skrifað og hlustað á tónlist,“ segir hann að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.